Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
28.2.2007 | 08:45
Stærðfræðingur Trúlofast
Grein eftir Þorgerði Einarsdóttur, birtist í fréttablaðinu 28 Febrúar.
Almenn samstaða virðist um það hérlendis að mikilvægt sé að auka þekkingu í hefðbundnum raunvísindagreinum og glæða áhuga barna á námi og starfi í raunvísindum og tæknigreinum. Þessi áhersla stafar ekki af sérstöku dekri við raunvísindi og hún þarf ekki að fela í sér vanmat á hug- og félagsvísindum. Hún byggist á því að í flóknum samfélögum nútímans séu hugvit, upplýsingar og tækniþekking burðarásar framþróunar, og að vísindi og nýsköpun vegi þungt í samkeppnisstöðu þjóða. Hugtökum eins og nýja hagkerfið, þekkingarsamfélag og upplýsingasamfélag er hent á lofti, og margir telja breytingarnar svo víðtækar að þeim megi líkja við byltingu.
Viðfangsefnið er margslungið. Stærðfræðikunnátta grunnskólanemenda virðist vera slakari en kunnátta í öðrum greinum, eins og fram hefur komið niðurstöðum samræmdra prófa um árabil og nýlegri PISA-könnun - þótt Ísland komi ekki illa út í alþjóðlegum samanburði. Það er þekkt að vandamál stærðfræðikennarar í grunnskólum hafa almennt litla menntun í stærðfræði og litla kennslufræði í faginu. Þrátt fyrir að stærðfræði sé ein stærsta kennslugrein grunnskólans útskrifast fá kennaraefni af stærðfræðikjörsviði KHÍ.
Vandamálið hefur líka kynjavídd. Hérlendis standa stelpur sig betur en strákar í stærðfræði í grunnskóla eins og PISA-könnunin staðfesti. Helst munar þar um lakari stöðu drengja á landsbyggðinni og sýnir það að ávallt eru fleiri en ein áhrifabreyta að verki. En þrátt fyrir betri árangur virðast stelpur velja sig frá stærðfræði þegar skyldunámskeiðum lýkur. Anna Kristjánsdóttir prófessor hefur bent á að stelpur sem ná afburðaárangri í stærðfræði á yngri árum taka sjaldnar en strákar þátt í stærðfræðikeppnum og heltast úr lestinni þegar á líður. Að mati vísindasagnfræðingsins Londu Schiebinger er brottfallið svo mikið að það þarf 2000 grunnskólastelpur til þess að búa til einn kvendoktor í raunvísindum, en sambærileg tala hjá strákum er 400. Í þessu samhengi eru síðustu breytingar á námskrá framhaldsskólans mikið áhyggjuefni en þar var skylduáföngum í stærðfræði fækkað verulega á félags- og málabrautum þar sem stelpurnar eru fjölmennastar.
Ástæðurnar fyrir raungreinafælni stelpna og stráka eru margar og flóknar. Margar þeirra voru ræddar af starfshópi menntamálaráðherra um aðgerðir til að fjölga nemendum í raunvísindum, sem lauk störfum í fyrra. Ýmsar ágætar tillögur komu þar fram, t.d. um aukna menntun og þjálfun, vísindaþekkingu og vísindalæsi, fjölbreytni í náms- og kennsluaðferðum og um Tilraunahús. En það vekur athygli að lítið er gert úr þætti sem nefndur er ímynd vísindanna/vísindamanna". Vísindin eru einmitt eitt þeirra sviða sem hvíla í afar sterkum staðalmyndum. Erlendar rannsóknir sýna að börn hafa miklar ranghugmyndir um störf vísindamanna og þau lýsa dæmigerðum vísindamanni nánast alltaf eins: Hann er fullorðinn hvítur karl í tilraunasloppi, utan við sig, nördalegur og úr tengslum við veruleikann. Hann hugsar örugglega ekki mikið um börnin sín eða fjölskylduna, og vísast hefur hann aldrei þvegið sokkana sína sjálfur eða skipt um á rúminu sínu.
Staðalmyndir eru gríðarlega áhrifamiklar sálfræðilegar hindranir. Þær búa til hugmyndir sem ekki eru til staðar og eiga ríkan þátt í félagsmótun barna. Könnun sem Kristján Ketill Stefánsson gerði í kennslufræði raungreina nýverið sýnir að þessar staðalmyndir lifa góðu lífi hérlendis. Þessa úrelta staðalmynd byggist á fullkomlega óraunhæfum mannskilningi. Það er t.d. allsendis óvíst að vísindamaðurinn hér að framan sé frjór í hugsun því skapandi einstaklingar þurfa tíma til að geta notið samskipta, lista, tómstunda eða félagsstarfa. Vísindastörf geta ekki verið sólarhringsvinna, það ógnar heilsu manna og velferð, fyrir utan að reynslan sýnir að góðar hugmyndir kvikna þegar fólk er í afslöppun.
Samt er þessi staðalmynd endursköpuð og ítrekuð í sífellu, jafnvel af þeim sem síst skyldi. Í myndasamkeppni Rannís og Morgunblaðsins Vísindamaðurinn minn" meðal 9-11 ára barna í tilefni Vísindavöku í október 2006 voru verðlaunamyndirnar allar í þessum dúr, en þær má sjá á heimasíðu Háskóla Íslands. Eflaust hefur myndasamkeppnin átt að auka áhuga barna á vísindum, en spurningin er hvort hún hefur kannski gert hið gagnstæða. Það þarf ekki mikinn hugsuð - eða vísindamann - til að sjá hvernig skera mætti á endurtekninguna. Það hefði verið hægt að hafa keppnina um konur og karlar í vísindum" eða brjóta niður þetta hátíðlega orð vísindamaður" og vísa í hversdagslega hluti, t.d. eðlisfræðingur skiptir á bleyju" eða stærðfræðingur trúlofast". Þannig mætti hugsanlega gera vísindamanninn" að þeirri heilu og heilsteyptu manneskju sem við viljum öll vera - og er vonandi meira aðlaðandi í hugum ungra krakka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2007 | 22:05
Fjármögnun vísinda á Íslandi
Fyrir rúmu ári síðan sat ég tveggja daga hugarflugsþing Vísinda- og tækniráðs (V og T) í Reykholti þar sem hugað var að stefnu vísindamála næstu árin. Úr þessu varð til skjal sem lýsir þeim hugmyndum sem fram komu. Margar hugmyndir komu þar fram og sumar hreint út sagt einkennilegar. Hugmyndin sem fékk hæstu einkunnina var þó mjög skynsamleg en hún hét "Efling samkeppnissjóða vísinda, tækni og framhaldsnáms" og, eins og nafnið gefur til kynna fjallaði hún um eflingu samkeppnissjóðanna. Ekkert hefur þó verið gert með þessa hugmynd síðan nema Tækniþróunarsjóður hefur eflst eitthvað.
Enn veita sjóðir V og T einungis hlut-fjármögnun og krefjast alltaf mótframlags stofnunar. Þetta verður til þess að þeir sem afla styrkja verða byrði á sinni stofnun/fyrirtæki, ef þeir eru duglegir að afla styrkja. Með þessu er hlutunum snúið á hvolf því auðvitað eiga þeir sem afla styrkjanna að vera eftirsóttir starfsmenn, en ekki byrði. Mun skynsamlegra fyrirkomulag væri að sjóðir V og T styrki allt verkefnið og krefjist ekki mótframlags stofnunar. Auk þess ættu sjóðirnir að greiða framlag til stofnunar/fyrirtækisins til að verðlauna það fyrir framtakið og hvetja það þannig til frekari sóknar. Vísindamaður sem fær þannig styrk getur unnið sitt verkefni en auk þess fær stofnunin framlag sem hún getur notað að vild. Þannig verður til dýnamík sem hvetur stofnanir til að ráða fólk sem getur aflað styrkja og þannig eflt starfsemi þeirra.
Styrkveitingar eru alltaf háðar jafningjamati, þ.e. mati annarra vísindamanna og þannig er tryggt að á hverjum tíma fá aðeins bestu verkefnin styrki. Þetta er eina gæðamatið sem þarf - það tryggir þeim stofnunum framgang sem hafa gott vísindafólk innanborðs og öðrum ekki. Er það ekki eins og við viljum hafa það?
Eiríkur Steingrímsson
22.2.2007 | 11:56
Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks
Tíðrætt er um birtingar ritrýndra greina sem besta mælikvarða á framleiðni vísindafólks, en í raun hlýtur framlag þeirra að vera fjölþættara. Sumir einstaklingar eru afburða leiðbeinendur, stjórnendur, fræðifólk eða rannsakendur. Hæfileikar vísindamanna eru því fjölbreytilegir og skyldur þeirra einnig. Í smærri samfélögum eins og á Íslandi er samt mikilvægt að einstaklingar geti látið til sín taka á fleiri en einu sviði, t.d. rannsóknir á fiskistofnum og veiðistjórnun eða fræðslu um sníkjudýrum í sandkössum. Í fljótu bragði gæti þessi krafa um fjölhæfni fræðimanna virkað sem fjötur um fót, en annað sjónarhorn er að fjölbreytt viðfangsefni í rannsóknum, fræðslu og jafnvel samfélagslegri umræðu um vísindi sé til gagns. Víðari skilningur fólks á aðferðafræði vísinda, forsendum tilrauna og túlkun þeirra getur einungis verið rannsóknum til framdráttar.
Í þessu ljósi er hægt að skilgreina nokkur veigamestu baráttumál vísindafólks.
1) Góð grunn kennsla á lægri menntastigum. Þekking á grundvallar lögmálum veraldarinnar og aðferðafræði vísinda er mikilvæg. Einnig er mikilvægt að rækta gagnrýna hugsun og lestur, rökvísi auk almennrar framsetningar. Geta til að setja fram hugsanir og niðurstöður á blað, slæðu eða í framsögu nýtist bæði fræðifólki framtíðarinnar og samfélaginu í heild.
2) Stuðningur við kennslu á Háskólastigi. Mikilvægt er að búa vel að kennslu, hvað varðar aðstöðu, endurmenntun, laun kennara og leiðbeinanda. Einnig er mikilvægt að styðja við nemendur, sérstaklega að hvetja þá til framfara og efla metnað þeirra fyrir menntun sinni og velferð samfélagsins.
3) Stuðningur við rannsóknir á stofnunum og í Háskólum. Allar betri rannsóknarstofnanir erlendis hafa sterka fjárhagslega stöðu sem notuð er til að hlúa að rannsóknum og opna nýjar brautir. Hér um ræðir fjármagn fyrir aðstöðu, tækjakost, aðstoðarfólk, og einnig umtalsvert rannsóknar fé. Til dæmis eru ný stöðugildi búin til í vísindagreinum þar sem mikill vöxtur er í og sem viðkomandi stofnun hefur lagt áherslu á. Einnig er nýráðið vísindafólk stutt með sjóð til tækjakaupa og oft launum fyrir aðstoðarfólk um nokkura ára skeið.
4) Auknir fjármunir í samkeppnissjóði. Flestar grunnrannsóknir krefjast fjármuna, sem afla verður með umsóknum í sjóði, innlenda sem erlenda. Hérlendis hefur of litið hlutfall rannsóknarpeninga og þjóðartekna verið varið í slíka sjóði, og löngu tímabært að bæta úr. Tvennskonar sjóðir eru mikilvægastir. Sjóðir sem fjármagna ákveðin verkefni í grunnvísindum og sem tengjast hagnýtingu þeirra. Slíkir styrkir eru veittir vísindafólki sem hefur byggt upp sjálfstæð rannsóknarverkefni og einnig er hægt að veita fjármunum til samstarfsverkefna. Annarsvegar eru svokallaðir einstaklings styrkir, sem væru veittir til nemenda í framhaldsnámi eða einstaklinga sem lokið hafa framhaldsprófi (e. post-doc). Slíkir styrkir hvetja einstaklinga til að standa sig og vinna að framsæknum verkefnum.
Þessir fjórir þættir vega að mínu mati þyngst fyrir Íslenskt vísindafólk. Vissulega eru nokkur atriði umdeild, eins og hvernig er skynsamlegast að deila fjármagni til þessara fjögura þátta. Nýr samningur menntamálaráðherra og Háskóla Íslands (sem er háður samþykki alþingis) er eitt dæmi um slíkt, þar sem rök hafa verið færð fyrir því að beina fjármunum í samkeppnissjóði frekar en eina stofnun. En reynslan erlendis frá (liður 3) sýnir að uppbygging rannsóknarumhverfis gefur einnig góðan árangur, sérstaklega þar sem stofnanir ná að verðlauna vísindafólk og deildir sem stunda framsæknar rannsóknir og fá styrki úr samkeppnissjóðum. Vel væri athugandi að láta hluta af upphæð styrkja renna í sérstaka sjóði, sem notaðir væru til að styðja við rannsóknir í viðkomandi stofnun (innan háskóla gæti einingin líka verið deild eða skor). Óháð útfærslunni held ég að slík samþætting stuðnings frá rannsóknarstofnun og samkeppnissjóðum sé nauðsynleg til að rannsóknir á Íslandi nái fullum blóma. Spurningin er einungis um útfærslu, því mannauðurinn er nægur.
Með kveðju Arnar Pálsson
Bloggar | Breytt 5.3.2007 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 11:14
Bætist í hópinn
Ég sendi póst um víðann völl til að sjá hvort að fleirri hefðu áhuga á að taka þátt í þessari bloggsíðu. Við það bættust í hópinn tveir, Indriði Indriðason og Arnar Pálsson. Komi þeir fagnandi.
Pétur Henry Petersen
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 09:07
Samnorræn Samvinna - möguleikar og tækifæri
NordForsk Styrkir til norræns vísindasamstarfs
Opinn hádegisfundur í Háskóla Íslands
RANNÍS og Háskóli Íslands boða til hádegisfundar í dag, þriðjudaginn 20.
febrúar kl. 12:15 í Hátíðasal Háskólans í Aðalbyggingu. Liisa
Hakamies-Blomqvist, forstöðumaður NordForsk kynnir starfsemi
stofnunarinnar og þau margvíslegu tækifæri til rannsóknastyrkja sem
bjóðast í norrænu vísindasamstarfi. Hún og þrír ráðgjafar frá NordForsk,
Susanna Sepponen, Kristin Oxley og Maria Nilsson, munu svara fyrirspurnum
og tækifæri gefst til að hitta þær að loknum fundi til frekara skrafs.
Eftir erindið verður boðið upp á hádegishressingu.
NordForsk er sjálfstæð norræn stofnun sem styrkir rannsóknastarf og
vísindamenntun á Norðurlöndum og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.
NordForsk styrkir meðal annars netsamstarf, námskeiðahald, starfsmanna-
og nemendaskipti og veitir undirbúningsstyrki. NordForsk rekur einnig
norrænar áætlanir um öndvegissetur og rannsóknaskóla á ýmsum sviðum.
Nánari upplýsingar um NordForsk má finna á www.nordforsk.org.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2007 | 19:00
Fjármögnun vísinda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 22:50
Anna Ingólfsdóttir fjallar um samning menntamálaráðuneytisins við Háskóla Íslands: Er þetta leiðin sem við viljum fara?
Í grein, sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. janúar síðastliðinn segir Einar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús, um áður nefndan samning: ,,Því fer fjarri að útkoman sé örugg. Háskóli Íslands er lítill háskóli og miklu minni en þeir skólar, sem eru á lista 100 bestu háskóla í heimi. Flestir þeirra búa að langri hefð, miklum metnaði og góðri aðstöðu. Við erum að keppa við stóru strákana og þar dugar engin ,,elsku mamma"." Þetta er reyndar ekki alveg rétt hjá Einari ef litið er til fjölda stúdenta. Hins vegar er það ljóst að afburðavísindamenn við þessar stofnanir eru miklu fleiri en við HÍ og því samkeppnin hörð. Samkvæmt þessu þurfum við því öðru fremur að laða til okkar afburðavísindamenn erlendis frá en jafnframt að sjá til þess að allir bestu vísindamenn landsins fái sem best tækifæri til að njóta sín. Ég skora því á stjórnvöld að sjá til þess að stórefla samkeppnissjóðina og jafnvel hugleiða að veita, þó ekki sé nema hluta af því fé, sem nú er eyrnamerkt Háskóla Íslands, í þessa sjóði og stuðla þannig að sem bestri nýtingu þess bæði innan Háskóla Íslands og utan.
Hafliði P. Gíslason, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar í Morgunblaðið fimmtudaginn 18. janúar: ,,Í ályktunum vísinda- og tækniráðs er ávallt fjallað um hin ýmsu málefni háskólastigsins í samhengi við annað rannsóknastarf í landinu. Í desember 2005 fagnaði ráðið sterkri stöðu Háskóla Íslands þar sem þungamiðja háskólarannsókna í landinu væri samkvæmt öllum tiltækum úttektum. Ráðið styður þá sýn forsvarsmanna skólans að með öflugri rannsóknastarfsemi skipi hann sér í hóp með bestu erlendu háskólum og efli jafnframt tengsl sín við íslenskt atvinnulíf og þjóðfélag." Einhverra hluta vegna hefur Hafliði valið að vitna í ályktun ráðsins frá 2005 en forðast að nefna nýjustu stefnu vísinda- og tækniráðs Íslands. Þar er hvergi minnst á að styrkja HÍ sérstaklega en alltaf talað um að styrkja háskólastigið og vísindin í landinu í heild sinni með sérstakri áherslu á styrkingu samkeppnissjóðanna. Í stefnu ráðsins fyrir tímabilið 2006 til 2009 segir meðal annars: ,,Vísinda- og tækniráð leggur höfuðáherslu á að:...efla opinbera samkeppnissjóði og sameina þá innan skyldra sviða."
Það verður auðvitað að teljast eðlilegt að Háskóli Íslands reyni að skipa sér í flokk bestu háskóla í heimi í sínum sterkustu greinum. Hins vegar eru til mikilvæg rannsóknasvið þar sem rannsóknahópar utan Háskóla Íslands hafa sýnt áberandi betri árangur en viðkomandi deild eða svið innan HÍ. Má þar t.d. nefna fög eins og tölvunarfræði og stærðfræði. Hvernig á að hlúa sem best að þessari starfsemi? Ein leið væri að Háskóli Íslands hreinlega keypti alla virka vísindamenn landsins og ryddi þannig allri samkeppni úr vegi. Rausnarlegar fjárveitingar ríkisins til HÍ gera þetta að raunhæfum möguleika. Ég spyr því: "Er þetta leiðin sem við viljum fara til að efla vísindin í landinu?"
Höfundur er prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
A quote from http://nsf.gov/news/news_summ.jsp?cntn_id=108322:
"The National Science Foundation (NSF) has chosen Jeannette Wing, president's professor and head of the Computer Science Department in Carnegie Mellon University's School of Computer Science (SCS), as assistant director for Computer & Information Science and Engineering (CISE) at NSF. She will begin her new position on July 1, 2007.
In the post, Wing will guide and manage funding for the federal agency that supports research in computer and information science and engineering. With a budget of over $527 million, CISE provides 86 percent of all federally funded research in computer science. In addition to research support, the CISE directorate contributes to the education and training of future generations of computer scientists and engineers."
The emphasis is mine. I let you draw your own conclusions.
Thanks to Björn þór Jónsson for the pointer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands skrifar í Morgunblaðið fimmtudaginn 8. febrúar 2007 um nýgerðan samning milli menntamálaráðuneytis og Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir.
Stórhugur í menntamálum kemur fram í tímamótasamningi ríkisvaldsins og Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir. Með undirritun samningsins nýverið birtist sameiginleg sýn stjórnvalda og Háskóla Íslands á mikilvægi metnaðarfullrar háskólamenntunar fyrir lýð og land. Staðfestingin er áríðandi fyrir þessa málsaðila og um leið þjóðina alla. Háskóli Íslands er þjóðskóli sem býður fram fjölbreytt nám og er opinn öllum sem náð hafa tilteknum lágmarksskilyrðum um inngöngu. Hann er leiðandi afl framfara til sjávar og sveita í samtíð og framtíð.
Ljóst þykir að 21. öldin verður öld þekkingar- og þjónustusamfélagsins. Við verðum sem þjóð að búa okkur undir slíkt samfélag og vera virk í mótun þess. Við verðum á tímum hnattvæðingar þar sem heimurinn skreppur æ meir saman að standa okkur í aukinni samkeppni milli þjóða á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar til að skapa hér gott atvinnu- og menningarlíf. Við verðum að stuðla að framúrskarandi uppeldi og menntun æskunnar í foreldrahúsum og á hverju skólastigi til að styrkja einstaklinginn og samfélagið. Við verðum að hlúa að þeim krafti og möguleikum sem býr í hverjum og einum og um leið þjóðinni allri og skapa þessum krafti farveg. Við verðum að varðveita menningararfinn og lýðræðishefðina. Og við verðum að skapa réttlátara samfélag heima og heiman á innlendum jafnt sem erlendum vettvangi. Leiðtogahlutverk smáþjóða með hátt menntunarstig verður æ ljósara og brýnna í því efni.
Ótvíræður stuðningur ríkisvaldsins við það starf sem fram fer við Háskóla Íslands og sókn hans fram í kennslu, rannsóknum og nýsköpun gefur byr í seglin. Áhersla er meðal annars lögð á öflugar rannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám.
Eins og ýmsir hafa haft á orði í ræðu og riti var stundin í hátíðarsal Háskóla Íslands tilfinningaþrungin þann 11. janúar sl. þegar þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrituðu samninginn. Vafalaust kom margt til og má þar nefna:
Með undirritun samningsins kemur fram opinber viðurkenning á mikilvægi starfsemi Háskóla Íslands fyrir þjóðina. Þar kemur fram traust og virðing fyrir starfi skólans og möguleikum hans til að ná háleitum markmiðum um að vera í framvarðasveit háskóla á alþjóðavettvangi.
Að frumkvæði rektors síðastliðið ár tóku kennarar og annað starfsfólk skólans ásamt mörgum stúdentum virkan þátt í að móta stefnu hans í kennslu, rannsóknum og stjórnun til næstu fimm ára eða fram að aldarafmæli skólans árið 2011. Samfélag skólans upplifir sig því sem gerendur í þessu stefnumótunar- og samningsferli; það á hér sinn hlut. Leiðarspurningin var hvernig Háskólinn gæti sem best þjónað íslensku samfélagi í framtíðinni. Óhætt er að fullyrða að einstaklega vel tókst til. Rektor á lof skilið fyrir þetta frumkvæði og sömuleiðis þeir sem stýrðu starfinu á markvissan hátt. Stefna skólans var grundvöllur samningsins ásamt stefnu stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum. Ströng skilyrði eru sett í samningum um árangur, en með því að virkja fólk skólans í stefnumörkuninni er líklegra að takist að framfylgja henni.
Kennarar skólans, sem hafa lagt metnað sinn og alúð við að láta slæma fjárhagsstöðu og þröngan kost árum saman koma sem minnst niður á gæðum kennslu og rannsókna, fengu staðfestingu á að til mikils var unnið. Í ræðu sinni gerði menntamálaráðherra að sérstöku umtalsefni niðurstöður úttekta (Ríkisendurskoðunar og OECD) á eftirtektarverðum árangri skólans sem háskólastofnunar og þá ekki síst í ljósi þess takmarkaða fjármagns sem veitt hefur verið til starfseminnar. Mikilvægt var að fá fram skilning yfirmanns menntamála landsins á þessari stöðu. Kennarar, stúdentar og annað starfsfólk skólans fylltist von.
Áhrifaríkt var og skemmtilegt að hlýða á stórhuga forystukonur menntamálaráðherra og rektor samhuga í framtíðarsýn sinni á hlutverk Háskóla Íslands í íslensku samfélagi sem og á alþjóðavettvangi.
Íslendingar hafa löngum gert sér grein fyrir mikilvægi menntunar í sókn til framfara á sviði vísinda og menningar- og atvinnulífs. Ekki er annað að sjá en að fólkið í landinu sé sammála um hve mikilvægt er að eiga háskóla eins og Háskóla Íslands; alhliða háskóla í þeim skilningi að þar veitist fólki tækifæri til mennta á ýmsum sviðum félagsvísinda, hugvísinda, raunvísinda og heilbrigðisvísinda. Einnig virðist þverpólitísk sátt um leiðandi hlutverk hans og að stefna beri hátt. Um leið er dýrmætt og brýnt að skólinn haldi áfram að vera þjóðskóli, skóli sem fólk getur sótt án tillits til þess hver félags- og efnahagsleg staða þess er.
Leiðarljósið er ávallt að efla farsæld og velsæld einstaklingins, samfélagsins og samfélag þjóðanna. Tækið til þess er góð menntun. Með orðum Nelson Mandela: "Menntun er mikilvægasta verkfærið sem við getum notað til að breyta heiminum".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 14:12
Fjölmiðlar og háskólar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar