Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
4.11.2010 | 13:59
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Rannsóknatengd nýsköpun er sú gerð nýsköpunar sem leiðir til mests virðisauka. Oftast á sú nýsköpun uppruna í grunnrannsóknum á sviði verkfræði og raun- og heilbrigðisvísinda. Staða þessara vísinda á Íslandi hefur hins vegar versnað að mun í kjölfar kreppunnar. Vísindarannsóknir á sviði raun- og heilbrigðisvísinda eru öflugustu rannsóknir sem stundaðar eru á Íslandi. Þetta hefur komið fram í öllum úttektum sem gerðar hafa verið á stöðu vísindarannsókna á Íslandi, nú síðast í skýrslu Rannís um ritrýndar birtingar og áhrif þeirra. Þrátt fyrir þetta er staða þessara fræðasviða veik í alþjóðlegum samanburði enda samkeppnissjóðir á Íslandi veikir. Helsti samkeppnissjóðurinn sem styrkir vísindarannsóknir er Rannsóknasjóður. Árið 2009 hafði hann samtals 314 milljónir til úthlutunar í ný verkefni. Meðalupphæð styrkja var 6.1 milljón. Þessi upphæð dugar vart fyrir launum og rekstrarkostnaði eins rannsóknarnema í eitt ár. Rannsóknastofa með einum nemenda er hins vegar örrannsóknastofa og langt frá sambærilegum rannsóknastofum í nágrannalöndunum þar sem stofur með 5-10 nemendum eru algengar. Sá árangur sem hefur náðst í vísindarannsóknum á sviði raun- og heilbrigðisvísinda er einkum því að þakka að erlendir samstarfsaðilar einstakra vísindamanna greiða oft brúsann. Það er hins vegar ekki hægt að reiða sig á slíkt til langframa og raunar má leiða líkur að því að niðurskurður á innlendu rannsóknarfé veiki samkeppnisstöðu íslenskra vísindamanna á erlendum vettvangi. Árangurshlutfall íslenskra vísindamanna í erlendum samkeppnissjóðum, s.s. 7. Rammaáætlun, hefur verið gott en minni árangur heima fyrir leiðir einungis til veikari samkeppnisstöðu erlendis. Þetta er vert að hafa í huga, ekki síst í ljósi þess að eitt af þremur meginstefjum í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010-2012 er einmitt að auka alþjóðlega samvinnu.
Íslenska meðalstyrkinn má bera saman við sambærilega styrki á vesturlöndum. Einfaldast er að bera hann saman við meðalstyrk í Bandaríkjunum þar sem styrkjakerfið er samræmt og gagnsætt en þar er það National Institutes of Health (NIH) sem einkum styrkir rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda. Flestir ef ekki allir bandarískir vísindamenn á sviði heilbrigðis- og lífvísinda reiða sig á styrki frá NIH en þeir eru mikilvægasta fjármögnunin. Meðal-upphæð verkefnastyrkja frá NIH var 416 þúsund dollarar/ár (50 milljónir ísl. kr.) árið 2009. Þetta er 9 sinnum hærri upphæð en meðal-verkefnisstyrkur frá Rannsóknasjóði. Frá Evrópu má nefna nærtækt dæmi, en samstarfsaðili annars okkar hlaut nýverið styrk að upphæð 20 milljónir sænskra króna (330 milljónir ísl. kr.) til fimm ára frá Strategiska Fonderna. Augljóst er að erfitt er að keppa við vísindamenn í nágrannalöndunum með hið íslenska styrkjakerfi að vopni.
Áhugaleysi stjórnvalda á rannsóknum á sviði verkfræði, raun- og heilbrigðisvísinda kemur fram á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi má nefna áhugaleysi gagnvart Rannsóknasjóði og takmarkaðan áhuga á að breyta pólitískum vísindasjóðum (t.d. AVS sjóðnum) í alvöru vísindasjóð. Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir endurteknar tilraunir hefur enn ekki tekist að fá niðurfelldan virðisaukaskatt af rannsóknavörum. Í þriðja lagi hefur mennta- og menningarmálaráðherra nýlega skipað Gæðaráð háskóla sem ætlað er að tryggja gæði háskólastarfsemi á Íslandi og bæta kennslu og rannsóknir á markvissan hátt. Þetta skref er fagnaðarefni. Það er hinsvegar athyglisvert að enginn þeirra erlendu sérfræðinga sem skipaðir hafa verið í ráðið hafa menntun eða reynslu á sviði tilraunavísinda (verkfræði, raun- eða heilbrigðisvísinda). Það virðist því ætlun yfirvalda að láta meta þessi vísindi, sem allir mælikvarðar segja að séu þau sterkustu á Íslandi, af einstaklingum sem ekki þekkja til þessara vísinda. Áhugaleysi stjórnvalda gagnvart málaflokknum er áhyggjuefni. Það er mikilvægt fyrir framtíð Íslands að efla rannsóknatengda nýsköpun. Fáir hefðu spáð því fyrir 20 árum að áhugaverðustu fyrirtæki Íslands árið 2010 störfuðu á sviði stoðtækja, erfðafræði, tölvuleikja eða lyfjaframleiðslu. Ef sambærileg óvænt nýsköpun á að geta orðið til í framtíðinni, er mikilvægt að stórefla samkeppnissjóði, sérstaklega á sviði raun- og heilbrigðisvísinda.
Í þessum greinarflokki höfum við lagt áherslu á samfélagslegt hlutverk vísinda og nýsköpunar. Vísindi geta skapað eina af stoðum nýs samfélags. Til þess að þetta verði að veruleika verðum við að endurskoða fjármögnun og gæðamat vísindarannsókna á Íslandi. Við leggjum til að á aldarafmæli Háskóla Íslands hefjist slík endurskoðun. Í þeim tilgangi mætti skipa ráðgjafarráð alþjóðlegra vísindamanna og annarra sérfræðinga á sviði nýsköpunar. Ráðgjöf slíks hóps gæti hjálpað okkur að brjótast úr viðjum stofnanafjárveitinga og um leið leyst úr læðingi nýjan kraft innan háskólasamfélagsins. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir að raunveruleg verðmætasköpun byggir á þekkingu og að slík fjárfesting er langtímafjárfesting sem leggur grunn að öflugu, frjóu og upplýstu samfélagi sem skapar eftirsóknarvert umhverfi fyrir komandi kynslóðir.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:58
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (4) Doktorsnám á Íslandi
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(4) Doktorsnám á Íslandi
Í fyrri greinum okkar höfum fjallað um hlutverk háskóla, fjármögnun vísindaverkefna og gæðamat. Við rannsóknarháskóla er doktorsnám grundvallareining rannsóknarstarfs háskóla. Langveigamesti þáttur slíks náms er vísindaverkefni doktorsnemans en í því felst sjálfstætt rannsóknarverkefni unnið undir handleiðslu háskólakennara. Slík vísindaverkefni eru víðast burðareining rannsóknarstarfs skólans. Doktorsneminn er þannig að mestu að vinna að sínu vísindaverkefni og þiggur fyrir það laun eða styrk. Kostnaður við slíkt nám nemur 4-8 milljónum á ári vegna launa og rekstrarkostnaðar og heildarkostnaður fyrir fjögurra ára doktorsnám er því um 16-32 milljónir. Við þetta bætist síðan kostnaður við uppbyggingu rannsóknarinnviða (t.d. tæki og gagnagrunnar), launakostnaður kennara og aðstoðarfólks og ýmis konar samrekstur.
Víðast hvar erlendis eru rannsóknarverkefni doktorsnema fjármögnuð gegnum samkeppnissjóði þar sem jafningamati er beitt og eru slíkir styrkir forsenda fyrir doktorsnáminu og um leið tryggja þeir gæði vísindaverkefnanna og doktorsnámsins. Þrátt fyrir mjög metnaðarfull markmið um fjölgun doktorsnema á síðustu árum hefur ekki átt sér stað samhliða áætlun um fjármögnun þessa námsstigs. Við Háskóla Íslands hefur fjöldi skráðra doktorsnema farið úr 36 árið 1999 í 190 árið 2006 og voru þeir í júní á þessu ári 487. Ljóst er að rekstrarfjármagn til vísindaverkefna stendur engan veginn undir þessum fjölda doktorsnema. Okkur er því fyrirmunað að skilja hvaðan fjármagnið kemur sem drífur áfram þessa sprengingu í fjölda doktorsnema.
Staðan í dag er sú að samkeppnissjóðirnir rýrna ár frá ári. Eimskipasjóður Háskóla Íslands sem veitt hefur myndarlega styrki til doktorsverkefna er að engu orðinn, styrkjum úr doktorsnemasjóði HÍ fækkar og samkeppnissjóðir í umsjón Rannís, einu sjóðirnir sem hafa þá faglegu aðferðafræði að tryggja raunveruleg gæði vísndaverkefna dragast saman ár frá ári þrátt fyrir að sókn í þá aukist verulega. Þetta er að gerast á sama tíma og við erum að leggja verulega aukna áherslu á þetta stig háskólastarfseminnar. Með öðrum orðum, við sitjum nú uppi með metnaðarfull áform um uppbyggingu doktorsnáms, hundruði doktorsnema í námi en samkeppnissjóðir sem eiga að tryggja gæði og styðja þessa uppbyggingu eru komnir að fótum fram.
Það vantar talsmenn fyrir eflingu samkeppnissjóðanna. Því miður hafa yfirmenn háskólastofnana verið svo uppteknir við tryggja grunnfjárveitingar til að halda háskólunum gangandi að þeir hafa ekki veitt yfirvöldum nógu skýr skilaboð um að forsenda vísindastarfsemi þessara stofnana byggir á því að fé sé veitt beint til vísindaverkefna á forsendum gæða. Við teljum að doktorsnám við háskóla á Íslandi sé nú í uppnámi. Það sem verst er, er að sennilega munu þeir hópar sem mest hafa reitt sig á fjármagn úr samkeppnissjóðum þ.e. sterkustu vísindahópar háskólanna verða verst úti.
Við teljum mikilvægt að ráðamenn vakni úr dvala og átti sig á því að enginn háskóli nær raunverulegum árangri án þess að styðja við bestu vísindamenn skólanna. Slíkan stuðning á að tryggja með því að veita raunverulegu fjármagni til vísindastarfsemi og um leið tryggja að fjármunirnir fari til þeirra vísindaverkefna sem best eru að gæðum. Um allan heim er slíkt gert með fjárveitingum í gegnum samkeppnissjóði þar sem sjálfstætt og óháð mat er lagt á hvert vísindaverkefni. Við höfum slíkt kerfi hér á landi innan sjóða sem úthluta styrkjum á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þeir sjóðir eru fjársveltir en með margföldun á fjármunum til þeirra má tryggja raunverulegan grundvöll fyrir doktorsnám, þekkingarsköpun innan háskóla og fyrirsjáanlega nýsköpun íslensku samfélagi til heilla.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:56
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (3) Gæði rannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(3) Gæði rannsókna
Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fer í gegnum samkeppnissjóðina. Í hinum vestræna heimi er þetta hlutfall víðast mun hærra og er um 30-40% á hinum norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum koma um 85% af rannsóknafé háskóla úr samkeppnissjóðum. Það er því ljóst að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.
Samkeppnissjóðirnir tryggja gæðaeftirlit með rannsóknunum. Rannsóknaverkefni og virkni vísindamanna sem sækja um styrki eru metin reglulega og þegar dregur úr virkni eða hugmyndaauðgi, fá viðkomandi vísindamenn ekki styrki lengur. Hér á landi nær þetta eftirlit aðeins til þess hluta af framlagi ríksins sem fer gegnum samkeppnissjóði. Sumir íslensku samkeppnissjóðanna, t.d. Rannsóknasjóður, notast nú við erlenda matsaðila þannig að flestar, ef ekki allar, umsóknir fara í mat erlendra, óháðra vísindamanna. Þannig fæst óháð mat á gæðum íslenskra vísindaverkefna og vísindamanna. Sjóðurinn og þjóðin ættu því að vera nokkuð viss um að þessu fé er vel varið. Aðrir sjóðir notast við innlenda matsaðila og ættu, í ljósi jákvæðrar reynslu Rannís, að breyta þeirri stefnu sinni og taka upp erlent mat. Sumir hinna sjóðanna eru reyndar fremur pólitískir sjóðir og eiga lítið skylt við alvöru vísindasjóði. Sem dæmi um slíkan sjóð er AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) en nýskipaður stjórnarformaður hans er þingmaður og náinn samstarfsmaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Mikill munur er einnig á árangurshlutfalli íslenskra vísindasjóða. Sem dæmi má nefna að í Rannsóknasjóði er þetta hlutfall að nálgast 10% en er 50% í AVS. Þetta þýðir að það er mun meiri samkeppni um fé úr Rannsóknasjóði en AVS.
Hvað með gæðaeftirlit með hinum 85-90 prósentunum af framlagi ríkisins til rannsókna? Staðreyndin er sú að með þeim er lítið sem ekkert ytra eftirlit og ekkert er spurt um gæði eða árangur. Þessu þarf að breyta. Víðast erlendis er strangt gæðaeftirlit með öllu fé sem veitt er til rannsókna til að hámarka nýtingu almannafjár. Við erum ekki að tala um hefðbundið bókhaldseftirlit heldur eftirlit með gæðum rannsóknanna. Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er þetta oftast gert á þann hátt að á 5 ára fresti þarf hver rannsóknastofa að útskýra fyrir sérstakri úttektarnefnd vísindamanna hvað stofan hefur gert á tímabilinu og hvað hún hyggst gera næstu 5 árin. Rannsóknastofan undirbýr vandlega skýrslu sem nefndin fær til yfirlestrar, nefndin mætir síðan á rannsóknastofuna þar sem verkefnin eru útskýrð með fyrirlestrum, farið er yfir árangurinn og hann metinn og skoðað hvort framtíðaráætlanirnar séu raunhæfar. Að lokum kemst úttektarnefndin að niðurstöðu sem settar eru fram í viðamikilli skýrslu. Í úttektarnefndinni eru yfirleitt leiðandi vísindamenn á viðkomandi sviði sem ekki hafa starfað með viðkomandi rannsóknastofu en þannig er tryggt að úttektin sé fagleg og óháð. Við höfum kynnst svona úttektum í störfum okkar erlendis. Þessi aðferð virkar afar vel. Hún er fagleg og leiðir til gagnrýninnar umræðu. Rannsóknastofum er hrósað fyrir það sem vel er gert en þær gagnrýndar fyrir það sem miður hefur farið. Niðurstöður slíkra úttekta eru síðan notaðar við ákvarðanatöku og stefnumótun.
Hér á landi er ekkert slíkt gæðaeftirlit með þeim fjölda stofnana sem stunda vísindarannsóknir. Hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, vita því ekki hvort þessu fé er vel varið. Vísinda- og tækniráð hefur þó nýlega tekið málið til umfjöllunar og segir í núverandi stefnu ráðsins Sjálfstæð greiningarvinna á afrakstri rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði styrkt hér á landi og unnin af óháðum aðilum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýlega sett á fót Gæðaráð háskóla sem ætlað er að skoða gæðamál innan háskóla, þ.á.m. tengsl kennslu og rannsókna. Ráðið er skipað sex erlendum aðilum og ætti því að geta verið faglegt og óháð. Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun- heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags, -hug- og menntavísindum hins vegar. Gæðaráðið er því ólíklegt til að geta lagt mat á gæði rannsókna í raun- heilbrigðis- og lífvísindum. Þessu þarf að breyta til að slíkt úttekt verði trúverðug.
Við leggjum því til að i) hafið verði gæðaeftirlit með öllu rannsóknafé á Íslandi; ii) við þetta eftirlit verði notast við þær aðferðir sem gefist hafa best annars staðar (sbr hér að ofan); iii) niðurstöður slíkra úttekta verði notaðar við ákvarðanatökur; iv) í gæðanefndina verði skipaðir aðilar úr raun- heilbrigðis- og lífvísindageirunum.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2010 | 13:54
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(2) Fjármögnun vísindarannsókna
Það er almennt viðurkennt að öflug rannsóknastarfsemi leiðir til verðmætrar nýsköpunar. Í úttekt sinni á tengslum grunnrannsókna og atvinnulífsins komst Committee for Economic Development, bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun, að þeirri niðurstöðu að 25% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna. Í efnahagsþrengingum sínum fyrir 2 áratugum ákváðu Finnar að stórauka áherslu sína á grunnrannsóknir og völdu þá leið að nota samkeppnissjóði til að ná markmiðum sínum um aukna nýsköpun. Þeir útbjuggu því samkeppnissjóði um alla rannsóknatengda starfsemi háskóla og stofnana og stórjuku framlög til sjóðanna. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa en Finnar eru nú meðal fremstu þjóða Evrópu á þessu sviði skv. úttekt European Innovation Scoreboard.
Í efnahagsþrengingum á Íslandi hefur verið rætt um mikilvægi þess að efla nýsköpunar og hefur Vísinda- og tækniráðs sett sér skýra og framsækna stefnu. Henni hefur þó ekki verið fylgt eftir svo neinu nemi. Nýlega voru þó samþykkt lög um skattaívilnun vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf. En framlög til þeirra sjóða sem helst styrkja rannsóknir og nýsköpun, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, hafa hins vegar staðið í stað í krónum talið sem þýðir að þau hafa í raun minnkað verulega að verðgildi. Þar sem íslenskir vísindamenn hafa alltaf staðið illa að vígi hvað fjármögnun varðar (enda upphæðir styrkja mun lægri hér en í flestum löndum Evrópu og Bandaríkjanna) er ljóst að staða þeirra hefur versnað að mun. Eitt lítið mál sem sýnir tómlæti stjórnvalda gagnvart rannsóknatengdri starfsemi er að hér er innheimtur virðisaukaskattur af allri rannsóknatengdri starfsemi háskóla og stofnana. Undanfarinn áratug hafa verið gerðar ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að fá skattinn felldan niður. Slíkur skattur er hvergi lagður á rannsóknastarfsemi í hinum vestræna heimi. Annað og alvarlegra mál er að samkeppnissjóðirnir eru einungis um 14% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi og hafa verið um langt skeið. Á Norðurlöndunum eru samkeppnissjóðirnir hins vegar 30-40%. Samkeppnissjóðirnir eru besta leiðin til að styrkja vísindastarfsemi enda veita þeir fjármagni milliliðalaust til vísindaverkefna og tryggja um leið aðhald með gæðum verkefna. Slíkt eftirlit er ekki nema að litlu leyti við lýði með þeim fjármunum sem veittir eru beint til stofnana. Ef nýta á betur fé til vísindarannsókna er mikilvægt að gera það á þann hátt að það skili auknum gæðum. Ef samkeppnissjóðirnir eru efldir aukast gæði rannsóknanna þannig að meira fæst fyrir féð. Við fjárlagagerð eru fáir talsmenn samkeppnissjóða en þeim mun fleiri og aðgangsharðari talsmenn þeirra stofnana sem þiggja sitt rannsóknafé beint af fjárlögum. Því er mikil hætta á því að samkeppnissjóðirnir verði útundan og verði jafnvel skornir niður við næstu fjárlagagerð. Þau vísindaverkefni sem hafa farið í jafningjamat og þar verið metin best, eru nú í mestri hættu á að vera ekki styrkt áfram, á meðan stofnanir sem stunda rannsóknir án gæðaeftirlits fá áfram fjármagn eftirlitslaust.
Annað alvarlegt vandamál í fjármögnun rannsókna á Íslandi er krafan um mótframlag. Þetta felst í því að stofnunin sem vísindamaðurinn starfar við þarf að leggja til ákveðið mótframlag á móti styrkjum sem koma inn. Afkastamiklir vísindamenn verða því byrði á sinni stofnun. Sem dæmi má nefna að nýlega var prófessor sagt upp við Háskólann í Reykjavík. Ástæðan sem gefin var upp var sparnaður. Prófessorinn var með öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði sem kallaði á mótframlög frá HR sem sennilega hafa verið skólanum of dýr og því betra að segja honum upp en einhverjum starfsmanni sem ekki var með slíkan styrk. Í flestum nágrannalöndum tíðkast hið andstæða, þ.e. styrkveitandinn veitir meðlag til stofnunarinnar sem tryggir að vísindarannsóknin getur farið fram. Þannig verður það eftirsóknarvert fyrir stofnanirnar að hafa afkastamikla vísindamenn á sínum snærum því umsvif stofnunarinnar aukast í beinu sambandi við styrkjaöflun.
Að okkar mati er því mikilvægt að: i) efla samkeppnissjóðina og tryggja að meira rannsóknafé verði veitt í gegnum þá; ii) hefja gæðaeftirlit með öllum rannsóknastofnunum og háskólum á Íslandi til að tryggja að hið opinbera greiði einungis fyrir bestu rannsóknir hverju sinni; iii) greiða meðlag til stofnunar með hverjum styrk til að tryggja að rannsóknin geti farið fram; iv) leggja niður innheimtu VSK af rannsóknastarfsemi.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:52
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (1) Hlutverk háskóla
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(1)Hlutverk háskóla
Íslenskt samfélag stendur á tímamótum. Við teljum að þessi tímamót kalli á umræðu um hlutverk íslenskra háskóla. Í þessum greinarflokki munum við beina sjónum okkar að rannsóknarhlutverki háskóla.
Háskólar eru fyrst og fremst mennta- og rannsóknastofnanir. Hlutverk þeirra er að stunda rannsóknir og mennta fólk og þjálfa til sérhæfðra starfa. Menntunin er tvennskonar. Annars vegar grunn- eða starfsmenntun og hins vegar rannsóknarmenntun, doktorsnám, en það felur í sér þjálfun í að takast á við viðfangsefni sem enginn hefur glímt við áður. Doktorsnámið felst í rannsóknastörfum og fer fram undir handleiðslu kennara sem hafa reynslu af rannsóknavinnu. Kennararnir aðstoða nemana við að móta og setja fram tilgátur sem síðan eru prófaðar með rökleiðslu, tilraunum eða greiningu á gögnum. Markmið rannsóknastarfa er að leita svara við hinu óþekkta og þjálfa ungt fólk í að beita þekkingu sinni.
Öflugt vísindastarf er háskólum og vísindastofnunum afar mikilvægt. Með því fæst einkum þrennt: i) Kennarar stofnunarinnar verða betur tengdir við það nýjasta í fræðunum og geta því betur miðlað nýjustu þekkingu til nemenda sinna; ii) Stofnunin nýtur trausts í samfélaginu enda vitað að þar eru vísindamenn sem þekkja til tiltekinna málaflokka og geta talað um þá af hlutleysi og þekkingu; iii) Með öflugu vísindastarfi skapast möguleikar á rannsóknatengdri nýsköpun en það er sú nýsköpun sem gefur mestan arð. Úr grunnrannsóknum verður til ný þekking sem er forsenda nýsköpunar sem getur leitt af sér viðskiptahugmyndir og atvinnutækifæri. Um þetta eru ótal dæmi, stór og smá. Slík þekkingarsköpun ásamt menntun ungs fólks er því hið óumdeilda og verðmæta samfélagslega hlutverk háskóla.
Um allan heim eru gæði háskóla metin út frá rannsóknavirkni þeirra. Á þessu eru fáar undantekningar. Hér á landi hafa nýlega verið sett lög sem skilgreina hlutverk háskóla víðar en víðast er gert. Í lögunum segir: Hann [háskólinn] miðlar fræðslu til almennings og veitir þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Þann 26. júní s.l. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem hún nefndi Hlutverk og ábyrgð háskóla. Þar leggur hún til að háskólar beini sjónum sínum í auknum mæli að samfélagslegu hlutverki sínu, frekar en að einblína á að efla gæði kennslu og rannsókna.
Við erum ósammála ráðherra um þetta. Að andvaraleysi og skortur á samræðu háskólafólks við samfélagið hafi átt veigamikinn þátt í hruninu er að okkar mati heldur ekki rétt ályktun. Miklu nær væri að spyrja hvort háskólasamfélagið hafi ekki verið of veikt til að bregðast við umhverfinu. Geta háskóla til að sinna samfélagslegu hlutverki sínu er í beinu sambandi við rannsóknavirkni þeirra. Það er lítið mark takandi á háskóla sem ekki tekur rannsóknahlutverk sitt alvarlega. Slíkur háskóli getur ekki haft þau áhrif á samfélag sitt sem allar þjóðir leitast eftir: hlutlausa, faglega umfjöllun, rannsóknatengda nýsköpun og almenna eflingu þekkingar. Allir geta verið sammála um það að sú þekking sem verður til í háskólum þarf að nýtast eins og kostur er við að bæta samfélagið. En það er ekki og á ekki að vera á ábyrgð háskólanna einna að það gerist. Vísindamenn eru ekki ráðnir til háskóla til að fræða almenning eða þjóna samfélaginu á annan hátt en að sinna sínu grunnhlutverki, þ.e. mennta háskólanema og stunda vísindi. Þeir eru þó ávallt reiðubúnir til að upplýsa og fræða þegar eftir því er leitað eins og sjá má daglega í fjölmiðlum landsins. Að leggja aukna áherslu á önnur hlutverk háskólamanna þegar ljóst er að rannsóknarinnviðir eru veikir og litlu fjármagni er veitt til kennslu mun að öllu óbreyttu rýra starf háskóla.
Nú eiga Íslendingar sjö háskólastofnanir. Engin þeirra kemst á blað yfir fimm hundruð fremstu háskólastofnanir heims, hvað þá hærra. Fjöldi háskóla á Norðurlöndunum eru á lista yfir bestu menntastofnanir heims og því ekkert sem útilokar að Ísland nái árangri hvað þetta varðar. Til að svo megi verða þarf að efla háskólana, einkum hvað rannsóknir og gæðamat varðar. Þetta kallar á endurskipulagningu og uppstokkun.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar