Færsluflokkur: Vísindi og fræði
6.10.2014 | 09:54
Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar
Greinin Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar eftir Guðrún Nordal birtist í Morgunblaðinu 4. september. Hún er endurprentuð hér með leyfi höfundar.
Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar
Hvernig virkjum við þann kraft sem býr í okkur sjálfum, í hug- og verkviti okkar? Hvernig föngum við mannauðinn, okkar dýrmætustu auðlind? Hvernig tryggjum við að unga fólkið okkar fái notið sinna ólíku hæfileika og skili framlagi til samfélagsins? Íslenskt samfélag breytist hratt. Atvinnulífið árið 2014, og þau tækifæri til nýsköpunar sem nú blasa við ungu fólki, eru allt önnur en þau voru fyrir aðeins tíu árum. Það er því nauðsynlegt að við séum tilbúin til að horfa gagnrýnum augum á það stoðkerfi vísinda, menntunar og nýsköpunar sem byggst hefur upp á lýðveldistímanum. Hvernig þjónar það þeim sem nú vaxa úr grasi?
Stefna stjórnvalda fyrir vísindi og nýsköpun er mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn, og hún þarf að svara síbreytilegum þörfum samfélagsins. Í ráðinu sitja sextán fulltrúar hagsmunaaðila, háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs. Forsætisráðherra er formaður ráðsins, en auk þess eiga sex aðrir ráðherrar sæti í ráðinu. Stefnan endurspeglar því áherslur stjórnvalda á hverjum tíma jafnt sem hagsmunaðila. Um hana á því að vera sátt.
En ekki er nóg að marka stefnu. Á fundi Vísinda- og tækniráðs í maí síðastliðnum var í fyrsta sinn samþykkt aðgerðaáætlun um stefnuna (sjá http://www.forsaetisraduneyti.is/vt/adgerdaaaetlun/) sem brýtur að ýmsu leyti blað í málaflokknum og sýnir að stjórnvöld hafa ákveðið að forgangsraða myndarlega í þágu vísinda og nýsköpunar. Þar var samþykkt áætlun um stórauknar fjárveitingar ríkisins, 800 milljónir árið 2015 og 2 milljarða árið 2016, í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð, tvo mikilvægustu samkeppnissjóði vísinda og nýsköpunar í landinu. Sterkir samkeppnissjóðir sem byggja á erlendu jafningjamati og ströngum gæðakröfum eru besta leiðin til að tryggja sveigjanleika og að opinbert fé renni til verkefna sem standast alþjóðlega samkeppni. Í tengslum við auknar opinberar fjárveitingar voru einnig samþykktar mikilvægar aðgerðir, m.a. um skattahvata, til að örva fjárfestingu atvinnulífsins í nýsköpun og vísindum, svo að þær geti aukist um allt að 5 milljarða á sama tímabili.
Í áætluninni er að finna margvíslegar aðgerðir sem snúa að háskólum og menntakerfinu almennt, rannsóknarstofnunum og atvinnulífi. Í fámenninu vantar okkur alltaf fólk með ákveðna hæfni og því eru skilgreindar leiðir til að tryggja að íslenskur vinnumarkaður sé samkeppnishæfur og aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga. Gjaldeyrishöftin eru vitaskuld stór og alvarleg hindrun á vegi nýsköpunar, en við þurfum einnig að ryðja ýmsum öðrum hindrunum úr vegi. Í mörgum tilvikum reynist flókið að meta árangur af opinberum fjárfestingum í þennan mikilvæga málaflokk, og því hefur verið ákveðið að leggja fé í heildstætt upplýsingakerfi sem fylgist með starfsemi þeirra ótalmörgu eininga sem starfa um allt land. Öll þessi verkefni krefjast samvinnu margra aðila, ekki aðeins stjórnvalda heldur háskóla, rannsóknastofnana og nýsköpunarfyrirtækja. Þau snúast ekki einungis um fjárveitingar, heldur um öguð vinnubrögð og vilja til breytinga.
Þekkingarsköpun verður æ flóknari í tæknivæddum heimi og því þarf atvinnulífið á öflugum sérfræðingum að halda sem geta staðið sig í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni. Sú þekkingarsköpun sem verður til í vísindastarfi birtist ekki aðeins í nýsköpun í nýjum fyrirtækjum sem hafa burði til að vaxa og verða stólpar í atvinnulífinu, eins og dæmi eins og Össur, Marel, CCP og Decode sanna. Nýsköpun í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkuiðnaði sýnir að í hefðbundnum atvinnugreinum er einnig mikið svigrúm til verðmætasköpunar. En nýsköpun birtist ekki aðeins í vöru. Menningarleg og samfélagsleg nýsköpun í opinbera geiranum, s.s. í menntakerfinu og heilbrigðis- og velferðarstofnunum, skilar okkur miklum ávinningi, bætir ferla, eykur gæði og hagræðir.
Íslenskt samfélag er örsmátt, en þó höfum við ótrúlega mörg tækifæri til verðmætasköpunar. Þau þurfum við að grípa saman og í samvinnu við öfluga alþjóðlega samstarfsaðila. Þau snúa ekki aðeins að efnhagslegum ábata heldur hvetja okkur til að leggja okkar að mörkum við lausn þeirra áskorana sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ég fagna því að stjórnvöld hafi með samþykkt aðgerðaáætlunar sýnt ríkan skilning á því grundvallarhlutverki sem menntun, vísindi og nýsköpun munu gegna á 21. öldinni nú er það okkar allra að fylgja henni fast eftir.
Guðrún Nordal
Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs
------------------
Aðgerðaráætlun Vísinda og tækniráðs 2014-2016.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2010 | 13:59
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Rannsóknatengd nýsköpun er sú gerð nýsköpunar sem leiðir til mests virðisauka. Oftast á sú nýsköpun uppruna í grunnrannsóknum á sviði verkfræði og raun- og heilbrigðisvísinda. Staða þessara vísinda á Íslandi hefur hins vegar versnað að mun í kjölfar kreppunnar. Vísindarannsóknir á sviði raun- og heilbrigðisvísinda eru öflugustu rannsóknir sem stundaðar eru á Íslandi. Þetta hefur komið fram í öllum úttektum sem gerðar hafa verið á stöðu vísindarannsókna á Íslandi, nú síðast í skýrslu Rannís um ritrýndar birtingar og áhrif þeirra. Þrátt fyrir þetta er staða þessara fræðasviða veik í alþjóðlegum samanburði enda samkeppnissjóðir á Íslandi veikir. Helsti samkeppnissjóðurinn sem styrkir vísindarannsóknir er Rannsóknasjóður. Árið 2009 hafði hann samtals 314 milljónir til úthlutunar í ný verkefni. Meðalupphæð styrkja var 6.1 milljón. Þessi upphæð dugar vart fyrir launum og rekstrarkostnaði eins rannsóknarnema í eitt ár. Rannsóknastofa með einum nemenda er hins vegar örrannsóknastofa og langt frá sambærilegum rannsóknastofum í nágrannalöndunum þar sem stofur með 5-10 nemendum eru algengar. Sá árangur sem hefur náðst í vísindarannsóknum á sviði raun- og heilbrigðisvísinda er einkum því að þakka að erlendir samstarfsaðilar einstakra vísindamanna greiða oft brúsann. Það er hins vegar ekki hægt að reiða sig á slíkt til langframa og raunar má leiða líkur að því að niðurskurður á innlendu rannsóknarfé veiki samkeppnisstöðu íslenskra vísindamanna á erlendum vettvangi. Árangurshlutfall íslenskra vísindamanna í erlendum samkeppnissjóðum, s.s. 7. Rammaáætlun, hefur verið gott en minni árangur heima fyrir leiðir einungis til veikari samkeppnisstöðu erlendis. Þetta er vert að hafa í huga, ekki síst í ljósi þess að eitt af þremur meginstefjum í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010-2012 er einmitt að auka alþjóðlega samvinnu.
Íslenska meðalstyrkinn má bera saman við sambærilega styrki á vesturlöndum. Einfaldast er að bera hann saman við meðalstyrk í Bandaríkjunum þar sem styrkjakerfið er samræmt og gagnsætt en þar er það National Institutes of Health (NIH) sem einkum styrkir rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda. Flestir ef ekki allir bandarískir vísindamenn á sviði heilbrigðis- og lífvísinda reiða sig á styrki frá NIH en þeir eru mikilvægasta fjármögnunin. Meðal-upphæð verkefnastyrkja frá NIH var 416 þúsund dollarar/ár (50 milljónir ísl. kr.) árið 2009. Þetta er 9 sinnum hærri upphæð en meðal-verkefnisstyrkur frá Rannsóknasjóði. Frá Evrópu má nefna nærtækt dæmi, en samstarfsaðili annars okkar hlaut nýverið styrk að upphæð 20 milljónir sænskra króna (330 milljónir ísl. kr.) til fimm ára frá Strategiska Fonderna. Augljóst er að erfitt er að keppa við vísindamenn í nágrannalöndunum með hið íslenska styrkjakerfi að vopni.
Áhugaleysi stjórnvalda á rannsóknum á sviði verkfræði, raun- og heilbrigðisvísinda kemur fram á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi má nefna áhugaleysi gagnvart Rannsóknasjóði og takmarkaðan áhuga á að breyta pólitískum vísindasjóðum (t.d. AVS sjóðnum) í alvöru vísindasjóð. Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir endurteknar tilraunir hefur enn ekki tekist að fá niðurfelldan virðisaukaskatt af rannsóknavörum. Í þriðja lagi hefur mennta- og menningarmálaráðherra nýlega skipað Gæðaráð háskóla sem ætlað er að tryggja gæði háskólastarfsemi á Íslandi og bæta kennslu og rannsóknir á markvissan hátt. Þetta skref er fagnaðarefni. Það er hinsvegar athyglisvert að enginn þeirra erlendu sérfræðinga sem skipaðir hafa verið í ráðið hafa menntun eða reynslu á sviði tilraunavísinda (verkfræði, raun- eða heilbrigðisvísinda). Það virðist því ætlun yfirvalda að láta meta þessi vísindi, sem allir mælikvarðar segja að séu þau sterkustu á Íslandi, af einstaklingum sem ekki þekkja til þessara vísinda. Áhugaleysi stjórnvalda gagnvart málaflokknum er áhyggjuefni. Það er mikilvægt fyrir framtíð Íslands að efla rannsóknatengda nýsköpun. Fáir hefðu spáð því fyrir 20 árum að áhugaverðustu fyrirtæki Íslands árið 2010 störfuðu á sviði stoðtækja, erfðafræði, tölvuleikja eða lyfjaframleiðslu. Ef sambærileg óvænt nýsköpun á að geta orðið til í framtíðinni, er mikilvægt að stórefla samkeppnissjóði, sérstaklega á sviði raun- og heilbrigðisvísinda.
Í þessum greinarflokki höfum við lagt áherslu á samfélagslegt hlutverk vísinda og nýsköpunar. Vísindi geta skapað eina af stoðum nýs samfélags. Til þess að þetta verði að veruleika verðum við að endurskoða fjármögnun og gæðamat vísindarannsókna á Íslandi. Við leggjum til að á aldarafmæli Háskóla Íslands hefjist slík endurskoðun. Í þeim tilgangi mætti skipa ráðgjafarráð alþjóðlegra vísindamanna og annarra sérfræðinga á sviði nýsköpunar. Ráðgjöf slíks hóps gæti hjálpað okkur að brjótast úr viðjum stofnanafjárveitinga og um leið leyst úr læðingi nýjan kraft innan háskólasamfélagsins. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir að raunveruleg verðmætasköpun byggir á þekkingu og að slík fjárfesting er langtímafjárfesting sem leggur grunn að öflugu, frjóu og upplýstu samfélagi sem skapar eftirsóknarvert umhverfi fyrir komandi kynslóðir.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:58
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (4) Doktorsnám á Íslandi
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(4) Doktorsnám á Íslandi
Í fyrri greinum okkar höfum fjallað um hlutverk háskóla, fjármögnun vísindaverkefna og gæðamat. Við rannsóknarháskóla er doktorsnám grundvallareining rannsóknarstarfs háskóla. Langveigamesti þáttur slíks náms er vísindaverkefni doktorsnemans en í því felst sjálfstætt rannsóknarverkefni unnið undir handleiðslu háskólakennara. Slík vísindaverkefni eru víðast burðareining rannsóknarstarfs skólans. Doktorsneminn er þannig að mestu að vinna að sínu vísindaverkefni og þiggur fyrir það laun eða styrk. Kostnaður við slíkt nám nemur 4-8 milljónum á ári vegna launa og rekstrarkostnaðar og heildarkostnaður fyrir fjögurra ára doktorsnám er því um 16-32 milljónir. Við þetta bætist síðan kostnaður við uppbyggingu rannsóknarinnviða (t.d. tæki og gagnagrunnar), launakostnaður kennara og aðstoðarfólks og ýmis konar samrekstur.
Víðast hvar erlendis eru rannsóknarverkefni doktorsnema fjármögnuð gegnum samkeppnissjóði þar sem jafningamati er beitt og eru slíkir styrkir forsenda fyrir doktorsnáminu og um leið tryggja þeir gæði vísindaverkefnanna og doktorsnámsins. Þrátt fyrir mjög metnaðarfull markmið um fjölgun doktorsnema á síðustu árum hefur ekki átt sér stað samhliða áætlun um fjármögnun þessa námsstigs. Við Háskóla Íslands hefur fjöldi skráðra doktorsnema farið úr 36 árið 1999 í 190 árið 2006 og voru þeir í júní á þessu ári 487. Ljóst er að rekstrarfjármagn til vísindaverkefna stendur engan veginn undir þessum fjölda doktorsnema. Okkur er því fyrirmunað að skilja hvaðan fjármagnið kemur sem drífur áfram þessa sprengingu í fjölda doktorsnema.
Staðan í dag er sú að samkeppnissjóðirnir rýrna ár frá ári. Eimskipasjóður Háskóla Íslands sem veitt hefur myndarlega styrki til doktorsverkefna er að engu orðinn, styrkjum úr doktorsnemasjóði HÍ fækkar og samkeppnissjóðir í umsjón Rannís, einu sjóðirnir sem hafa þá faglegu aðferðafræði að tryggja raunveruleg gæði vísndaverkefna dragast saman ár frá ári þrátt fyrir að sókn í þá aukist verulega. Þetta er að gerast á sama tíma og við erum að leggja verulega aukna áherslu á þetta stig háskólastarfseminnar. Með öðrum orðum, við sitjum nú uppi með metnaðarfull áform um uppbyggingu doktorsnáms, hundruði doktorsnema í námi en samkeppnissjóðir sem eiga að tryggja gæði og styðja þessa uppbyggingu eru komnir að fótum fram.
Það vantar talsmenn fyrir eflingu samkeppnissjóðanna. Því miður hafa yfirmenn háskólastofnana verið svo uppteknir við tryggja grunnfjárveitingar til að halda háskólunum gangandi að þeir hafa ekki veitt yfirvöldum nógu skýr skilaboð um að forsenda vísindastarfsemi þessara stofnana byggir á því að fé sé veitt beint til vísindaverkefna á forsendum gæða. Við teljum að doktorsnám við háskóla á Íslandi sé nú í uppnámi. Það sem verst er, er að sennilega munu þeir hópar sem mest hafa reitt sig á fjármagn úr samkeppnissjóðum þ.e. sterkustu vísindahópar háskólanna verða verst úti.
Við teljum mikilvægt að ráðamenn vakni úr dvala og átti sig á því að enginn háskóli nær raunverulegum árangri án þess að styðja við bestu vísindamenn skólanna. Slíkan stuðning á að tryggja með því að veita raunverulegu fjármagni til vísindastarfsemi og um leið tryggja að fjármunirnir fari til þeirra vísindaverkefna sem best eru að gæðum. Um allan heim er slíkt gert með fjárveitingum í gegnum samkeppnissjóði þar sem sjálfstætt og óháð mat er lagt á hvert vísindaverkefni. Við höfum slíkt kerfi hér á landi innan sjóða sem úthluta styrkjum á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þeir sjóðir eru fjársveltir en með margföldun á fjármunum til þeirra má tryggja raunverulegan grundvöll fyrir doktorsnám, þekkingarsköpun innan háskóla og fyrirsjáanlega nýsköpun íslensku samfélagi til heilla.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:56
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (3) Gæði rannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(3) Gæði rannsókna
Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fer í gegnum samkeppnissjóðina. Í hinum vestræna heimi er þetta hlutfall víðast mun hærra og er um 30-40% á hinum norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum koma um 85% af rannsóknafé háskóla úr samkeppnissjóðum. Það er því ljóst að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.
Samkeppnissjóðirnir tryggja gæðaeftirlit með rannsóknunum. Rannsóknaverkefni og virkni vísindamanna sem sækja um styrki eru metin reglulega og þegar dregur úr virkni eða hugmyndaauðgi, fá viðkomandi vísindamenn ekki styrki lengur. Hér á landi nær þetta eftirlit aðeins til þess hluta af framlagi ríksins sem fer gegnum samkeppnissjóði. Sumir íslensku samkeppnissjóðanna, t.d. Rannsóknasjóður, notast nú við erlenda matsaðila þannig að flestar, ef ekki allar, umsóknir fara í mat erlendra, óháðra vísindamanna. Þannig fæst óháð mat á gæðum íslenskra vísindaverkefna og vísindamanna. Sjóðurinn og þjóðin ættu því að vera nokkuð viss um að þessu fé er vel varið. Aðrir sjóðir notast við innlenda matsaðila og ættu, í ljósi jákvæðrar reynslu Rannís, að breyta þeirri stefnu sinni og taka upp erlent mat. Sumir hinna sjóðanna eru reyndar fremur pólitískir sjóðir og eiga lítið skylt við alvöru vísindasjóði. Sem dæmi um slíkan sjóð er AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) en nýskipaður stjórnarformaður hans er þingmaður og náinn samstarfsmaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Mikill munur er einnig á árangurshlutfalli íslenskra vísindasjóða. Sem dæmi má nefna að í Rannsóknasjóði er þetta hlutfall að nálgast 10% en er 50% í AVS. Þetta þýðir að það er mun meiri samkeppni um fé úr Rannsóknasjóði en AVS.
Hvað með gæðaeftirlit með hinum 85-90 prósentunum af framlagi ríkisins til rannsókna? Staðreyndin er sú að með þeim er lítið sem ekkert ytra eftirlit og ekkert er spurt um gæði eða árangur. Þessu þarf að breyta. Víðast erlendis er strangt gæðaeftirlit með öllu fé sem veitt er til rannsókna til að hámarka nýtingu almannafjár. Við erum ekki að tala um hefðbundið bókhaldseftirlit heldur eftirlit með gæðum rannsóknanna. Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er þetta oftast gert á þann hátt að á 5 ára fresti þarf hver rannsóknastofa að útskýra fyrir sérstakri úttektarnefnd vísindamanna hvað stofan hefur gert á tímabilinu og hvað hún hyggst gera næstu 5 árin. Rannsóknastofan undirbýr vandlega skýrslu sem nefndin fær til yfirlestrar, nefndin mætir síðan á rannsóknastofuna þar sem verkefnin eru útskýrð með fyrirlestrum, farið er yfir árangurinn og hann metinn og skoðað hvort framtíðaráætlanirnar séu raunhæfar. Að lokum kemst úttektarnefndin að niðurstöðu sem settar eru fram í viðamikilli skýrslu. Í úttektarnefndinni eru yfirleitt leiðandi vísindamenn á viðkomandi sviði sem ekki hafa starfað með viðkomandi rannsóknastofu en þannig er tryggt að úttektin sé fagleg og óháð. Við höfum kynnst svona úttektum í störfum okkar erlendis. Þessi aðferð virkar afar vel. Hún er fagleg og leiðir til gagnrýninnar umræðu. Rannsóknastofum er hrósað fyrir það sem vel er gert en þær gagnrýndar fyrir það sem miður hefur farið. Niðurstöður slíkra úttekta eru síðan notaðar við ákvarðanatöku og stefnumótun.
Hér á landi er ekkert slíkt gæðaeftirlit með þeim fjölda stofnana sem stunda vísindarannsóknir. Hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, vita því ekki hvort þessu fé er vel varið. Vísinda- og tækniráð hefur þó nýlega tekið málið til umfjöllunar og segir í núverandi stefnu ráðsins Sjálfstæð greiningarvinna á afrakstri rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði styrkt hér á landi og unnin af óháðum aðilum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýlega sett á fót Gæðaráð háskóla sem ætlað er að skoða gæðamál innan háskóla, þ.á.m. tengsl kennslu og rannsókna. Ráðið er skipað sex erlendum aðilum og ætti því að geta verið faglegt og óháð. Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun- heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags, -hug- og menntavísindum hins vegar. Gæðaráðið er því ólíklegt til að geta lagt mat á gæði rannsókna í raun- heilbrigðis- og lífvísindum. Þessu þarf að breyta til að slíkt úttekt verði trúverðug.
Við leggjum því til að i) hafið verði gæðaeftirlit með öllu rannsóknafé á Íslandi; ii) við þetta eftirlit verði notast við þær aðferðir sem gefist hafa best annars staðar (sbr hér að ofan); iii) niðurstöður slíkra úttekta verði notaðar við ákvarðanatökur; iv) í gæðanefndina verði skipaðir aðilar úr raun- heilbrigðis- og lífvísindageirunum.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2010 | 13:54
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(2) Fjármögnun vísindarannsókna
Það er almennt viðurkennt að öflug rannsóknastarfsemi leiðir til verðmætrar nýsköpunar. Í úttekt sinni á tengslum grunnrannsókna og atvinnulífsins komst Committee for Economic Development, bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun, að þeirri niðurstöðu að 25% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna. Í efnahagsþrengingum sínum fyrir 2 áratugum ákváðu Finnar að stórauka áherslu sína á grunnrannsóknir og völdu þá leið að nota samkeppnissjóði til að ná markmiðum sínum um aukna nýsköpun. Þeir útbjuggu því samkeppnissjóði um alla rannsóknatengda starfsemi háskóla og stofnana og stórjuku framlög til sjóðanna. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa en Finnar eru nú meðal fremstu þjóða Evrópu á þessu sviði skv. úttekt European Innovation Scoreboard.
Í efnahagsþrengingum á Íslandi hefur verið rætt um mikilvægi þess að efla nýsköpunar og hefur Vísinda- og tækniráðs sett sér skýra og framsækna stefnu. Henni hefur þó ekki verið fylgt eftir svo neinu nemi. Nýlega voru þó samþykkt lög um skattaívilnun vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf. En framlög til þeirra sjóða sem helst styrkja rannsóknir og nýsköpun, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, hafa hins vegar staðið í stað í krónum talið sem þýðir að þau hafa í raun minnkað verulega að verðgildi. Þar sem íslenskir vísindamenn hafa alltaf staðið illa að vígi hvað fjármögnun varðar (enda upphæðir styrkja mun lægri hér en í flestum löndum Evrópu og Bandaríkjanna) er ljóst að staða þeirra hefur versnað að mun. Eitt lítið mál sem sýnir tómlæti stjórnvalda gagnvart rannsóknatengdri starfsemi er að hér er innheimtur virðisaukaskattur af allri rannsóknatengdri starfsemi háskóla og stofnana. Undanfarinn áratug hafa verið gerðar ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að fá skattinn felldan niður. Slíkur skattur er hvergi lagður á rannsóknastarfsemi í hinum vestræna heimi. Annað og alvarlegra mál er að samkeppnissjóðirnir eru einungis um 14% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi og hafa verið um langt skeið. Á Norðurlöndunum eru samkeppnissjóðirnir hins vegar 30-40%. Samkeppnissjóðirnir eru besta leiðin til að styrkja vísindastarfsemi enda veita þeir fjármagni milliliðalaust til vísindaverkefna og tryggja um leið aðhald með gæðum verkefna. Slíkt eftirlit er ekki nema að litlu leyti við lýði með þeim fjármunum sem veittir eru beint til stofnana. Ef nýta á betur fé til vísindarannsókna er mikilvægt að gera það á þann hátt að það skili auknum gæðum. Ef samkeppnissjóðirnir eru efldir aukast gæði rannsóknanna þannig að meira fæst fyrir féð. Við fjárlagagerð eru fáir talsmenn samkeppnissjóða en þeim mun fleiri og aðgangsharðari talsmenn þeirra stofnana sem þiggja sitt rannsóknafé beint af fjárlögum. Því er mikil hætta á því að samkeppnissjóðirnir verði útundan og verði jafnvel skornir niður við næstu fjárlagagerð. Þau vísindaverkefni sem hafa farið í jafningjamat og þar verið metin best, eru nú í mestri hættu á að vera ekki styrkt áfram, á meðan stofnanir sem stunda rannsóknir án gæðaeftirlits fá áfram fjármagn eftirlitslaust.
Annað alvarlegt vandamál í fjármögnun rannsókna á Íslandi er krafan um mótframlag. Þetta felst í því að stofnunin sem vísindamaðurinn starfar við þarf að leggja til ákveðið mótframlag á móti styrkjum sem koma inn. Afkastamiklir vísindamenn verða því byrði á sinni stofnun. Sem dæmi má nefna að nýlega var prófessor sagt upp við Háskólann í Reykjavík. Ástæðan sem gefin var upp var sparnaður. Prófessorinn var með öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði sem kallaði á mótframlög frá HR sem sennilega hafa verið skólanum of dýr og því betra að segja honum upp en einhverjum starfsmanni sem ekki var með slíkan styrk. Í flestum nágrannalöndum tíðkast hið andstæða, þ.e. styrkveitandinn veitir meðlag til stofnunarinnar sem tryggir að vísindarannsóknin getur farið fram. Þannig verður það eftirsóknarvert fyrir stofnanirnar að hafa afkastamikla vísindamenn á sínum snærum því umsvif stofnunarinnar aukast í beinu sambandi við styrkjaöflun.
Að okkar mati er því mikilvægt að: i) efla samkeppnissjóðina og tryggja að meira rannsóknafé verði veitt í gegnum þá; ii) hefja gæðaeftirlit með öllum rannsóknastofnunum og háskólum á Íslandi til að tryggja að hið opinbera greiði einungis fyrir bestu rannsóknir hverju sinni; iii) greiða meðlag til stofnunar með hverjum styrk til að tryggja að rannsóknin geti farið fram; iv) leggja niður innheimtu VSK af rannsóknastarfsemi.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
4.11.2010 | 13:52
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (1) Hlutverk háskóla
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(1)Hlutverk háskóla
Íslenskt samfélag stendur á tímamótum. Við teljum að þessi tímamót kalli á umræðu um hlutverk íslenskra háskóla. Í þessum greinarflokki munum við beina sjónum okkar að rannsóknarhlutverki háskóla.
Háskólar eru fyrst og fremst mennta- og rannsóknastofnanir. Hlutverk þeirra er að stunda rannsóknir og mennta fólk og þjálfa til sérhæfðra starfa. Menntunin er tvennskonar. Annars vegar grunn- eða starfsmenntun og hins vegar rannsóknarmenntun, doktorsnám, en það felur í sér þjálfun í að takast á við viðfangsefni sem enginn hefur glímt við áður. Doktorsnámið felst í rannsóknastörfum og fer fram undir handleiðslu kennara sem hafa reynslu af rannsóknavinnu. Kennararnir aðstoða nemana við að móta og setja fram tilgátur sem síðan eru prófaðar með rökleiðslu, tilraunum eða greiningu á gögnum. Markmið rannsóknastarfa er að leita svara við hinu óþekkta og þjálfa ungt fólk í að beita þekkingu sinni.
Öflugt vísindastarf er háskólum og vísindastofnunum afar mikilvægt. Með því fæst einkum þrennt: i) Kennarar stofnunarinnar verða betur tengdir við það nýjasta í fræðunum og geta því betur miðlað nýjustu þekkingu til nemenda sinna; ii) Stofnunin nýtur trausts í samfélaginu enda vitað að þar eru vísindamenn sem þekkja til tiltekinna málaflokka og geta talað um þá af hlutleysi og þekkingu; iii) Með öflugu vísindastarfi skapast möguleikar á rannsóknatengdri nýsköpun en það er sú nýsköpun sem gefur mestan arð. Úr grunnrannsóknum verður til ný þekking sem er forsenda nýsköpunar sem getur leitt af sér viðskiptahugmyndir og atvinnutækifæri. Um þetta eru ótal dæmi, stór og smá. Slík þekkingarsköpun ásamt menntun ungs fólks er því hið óumdeilda og verðmæta samfélagslega hlutverk háskóla.
Um allan heim eru gæði háskóla metin út frá rannsóknavirkni þeirra. Á þessu eru fáar undantekningar. Hér á landi hafa nýlega verið sett lög sem skilgreina hlutverk háskóla víðar en víðast er gert. Í lögunum segir: Hann [háskólinn] miðlar fræðslu til almennings og veitir þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Þann 26. júní s.l. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem hún nefndi Hlutverk og ábyrgð háskóla. Þar leggur hún til að háskólar beini sjónum sínum í auknum mæli að samfélagslegu hlutverki sínu, frekar en að einblína á að efla gæði kennslu og rannsókna.
Við erum ósammála ráðherra um þetta. Að andvaraleysi og skortur á samræðu háskólafólks við samfélagið hafi átt veigamikinn þátt í hruninu er að okkar mati heldur ekki rétt ályktun. Miklu nær væri að spyrja hvort háskólasamfélagið hafi ekki verið of veikt til að bregðast við umhverfinu. Geta háskóla til að sinna samfélagslegu hlutverki sínu er í beinu sambandi við rannsóknavirkni þeirra. Það er lítið mark takandi á háskóla sem ekki tekur rannsóknahlutverk sitt alvarlega. Slíkur háskóli getur ekki haft þau áhrif á samfélag sitt sem allar þjóðir leitast eftir: hlutlausa, faglega umfjöllun, rannsóknatengda nýsköpun og almenna eflingu þekkingar. Allir geta verið sammála um það að sú þekking sem verður til í háskólum þarf að nýtast eins og kostur er við að bæta samfélagið. En það er ekki og á ekki að vera á ábyrgð háskólanna einna að það gerist. Vísindamenn eru ekki ráðnir til háskóla til að fræða almenning eða þjóna samfélaginu á annan hátt en að sinna sínu grunnhlutverki, þ.e. mennta háskólanema og stunda vísindi. Þeir eru þó ávallt reiðubúnir til að upplýsa og fræða þegar eftir því er leitað eins og sjá má daglega í fjölmiðlum landsins. Að leggja aukna áherslu á önnur hlutverk háskólamanna þegar ljóst er að rannsóknarinnviðir eru veikir og litlu fjármagni er veitt til kennslu mun að öllu óbreyttu rýra starf háskóla.
Nú eiga Íslendingar sjö háskólastofnanir. Engin þeirra kemst á blað yfir fimm hundruð fremstu háskólastofnanir heims, hvað þá hærra. Fjöldi háskóla á Norðurlöndunum eru á lista yfir bestu menntastofnanir heims og því ekkert sem útilokar að Ísland nái árangri hvað þetta varðar. Til að svo megi verða þarf að efla háskólana, einkum hvað rannsóknir og gæðamat varðar. Þetta kallar á endurskipulagningu og uppstokkun.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
21.10.2009 | 16:16
Kerfi sem ýtir undir framleiðslu en ekki fagmennsku
Eiríkur Bergmann leggur mikilvæg lóð á skálar umræðu um háskólamenntun í landinu í Fréttablaði dagsins (21 október 2009). Grein hans inniheldur gullkorn og högl.
En jafnvel þótt slíku sé haldið fram í hátíðarræðum hygg ég að flestir sem hafa starfað við háskólakennslu á Íslandi lengur en áratug viti mætavel að námskröfur hafa stöðugt minnkað eftir því sem kló samkeppninnar hefur gripið þéttar.
Þetta á jafnt við í öllum skólunum, ríkisskólum sem öðrum, enda tilkomið af kerfislægri skekkju og varð meðal annars til með því reikningslíkani sem skiptir opinberu fé á milli háskóla landsins.
Kerfið bókstaflega hvetur skólana til að kenna í risastórum hópum og fjöldaframleiða prófskírteini burt séð frá gæðum menntunarinnar.
Ég kenndi verklega tíma í liffræðinni milli 1994 og 1998, og kom síðan aftur til starfa árið 2007 eftir nám erlendis. Mér fannst námið vera frekar áþekkt að upplagi, en samt fékk ég að kynnast betur hlið kennara og stjórnenda, sem þurfa að reka sínar faglegu einingar í kerfi því sem Eiríkur ræðir. Fyrir bókhald háskólaeininga er höfuðáherslan á fjölda nemenda, sem ljúka prófi, ekki endilega gæði kennslunar.
Kennararnir eru vitanlega meðvitaðir um þetta, og streitast við skipulags breytingum og niðurskurði á verklegri kennslu og fleiru í þeim dúr.
Grein Eiríks er vitanlega hluti af þeim slag sem nú stendur yfir milli núverandi Háskóla á Ísland. Við höfum áður séð barátturæður Svövu Grönfeld og Kristínar Ingólfsdóttur.
Veruleikinn sem blasir við er að við þurfum að spara og það er best ef við komum okkur saman um hvernig það verður gert, frekar en að stjórnsýslan taki einhverjar fáránlegar ákvarðanir!
Ég sting upp á því að stjórnsýsla Háskólanna verði einfölduð, boðleiðir, bókhald og utanumhald einfaldað. Það sparar pening, og gefur starfsfólki meiri tíma til rannsókna og kennslu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 10:15
Forystuleysið í háskóla- og vísindamálum
Eftirfarandi grein má finna á http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/netgrein.html?art_id=83681. Stytt útgáfa af henni birtist í pappírsútgáfu Mbl þann 18. júlí.
Til stendur að endurskipuleggja allt háskóla- og vísindastarf á Íslandi. Verði það gert á metnaðarfullan og skynsamlegan hátt mætti bæta þetta starf stórkostlega, þótt ekki komi í upphafi til meira fé en nú er í kerfinu. Vissulega hafa á síðustu árum komið fram efnilegir vaxtarsprotar í háskólastarfi hér. Því miður er ekki hægt að segja að háskóla- og vísindastjórnunarkerfið í landinu hafi markvisst hlúð að slíkum sprotum, né heldur markvisst byggt upp öflugar rannsóknir yfirleitt. Þvert á móti hefur kerfið einkennst af skilningsleysi á uppbyggingu góðs vísindastarfs. Sama gildir um forystu Háskóla Íslands og Háskólans í Rekjavík, sem hafa ekki unnið í samræmi við yfirlýsta stefnu skóla sinna um að koma þeim í fremstu röð á alþjóðavettvangi.
Ein helsta spurningin sem þarf að svara nú er hvort við viljum byggja upp miklu betra rannsóknastarf hér en við höfum. Sé svarið já þarf að rífa núverandi kerfi fjármögnunar rannsókna upp með rótum, og koma á fót nýju, þar sem öllu fé sem ríkið veitir í rannsóknir er veitt til rannsókna sem standast alþjóðlegan samanburð. Af slíkum rannsóknum er þegar töluvert hér á landi en þær búa við kröpp kjör og eru lagðar að jöfnu við rannsóknavinnu sem ekki stenst neinar kröfur.
Hér verða aðeins nefnd fá af mörgum dæmum sem lýsandi eru fyrir getuleysi núverandi stofnana á þessu sviði, getuleysi sem gerir það vonlítið að forysta þeirra geti verið í fararbroddi fyrir eflingu háskóla- og vísindastarfs í landinu. Fyrst er rétt að benda á athyglisverða staðreynd: Í æðstu akademísku forystu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, sem telur u.þ.b. 15 sviðs- eða deildarforseta auk rektora og aðstoðarrektora, er ein manneskja með teljandi reynslu af þeim alþjóðavettvangi sem báðir skólarnir segjast ætla að komast framarlega á. Sú manneskja hefur starfað hér í hálft ár (við HÍ). (Hér er undanskilinn konrektor HR, sem ráðinn er tímabundið, er lítið á landinu, og hefur augljóslega ekki verið ráðinn til að taka á þeim djúpstæðu vandamálum sem skólinn á við að etja.)
Tölfræði af þessu tagi segir ekkert um einstaklingana sem um ræðir, því enginn verður sjálfkrafa góður forystumaður í háskóla af því að hafa reynslu úr góðum erlendum háskólum, og ekki er ómögulegt að vera góður leiðtogi þótt maður hafi alið allan sinn aldur á Íslandi eftir doktorspróf. Þegar þessari tölfræði er hins vegar beitt á alla forystu þeirra íslensku háskóla sem tala um að hasla sér völl á alþjóðavettvangi er ljóst að hér ríkir mikið skilningsleysi á nauðsyn reynslu af því starfi sem rætt er um að byggja upp.
Háskóli Íslands
Háskóli Íslands setti sér fyrir þrem árum það markmið að komast í hóp hundrað bestu háskóla í heimi, mælt á þeim kvörðum sem mikil samstaða er um í alþjóðlega vísindasamfélaginu. Skólinn fékk samning við Menntamálaráðuneytið um að framlög til rannsókna hans ykjust jafnt og þétt svo að frá og með 2011 næmi aukningin þrem milljörðum á ári, miðað við 2006. Þetta fé hefði mátt nota til að ráða a.m.k. hundrað öfluga vísindamenn erlendis frá (íslenska og erlenda), og skapa þeim þá aðstöðu sem þarf til að þeir gætu blómstrað. Þetta, að stórfjölga öflugu vísindafólki við skólann, er eina leiðin til að ná þeim markmiðum sem sett voru. Staðreyndin er hins vegar sú að afar lítið hefur verið ráðið af öflugu fólki á þessu tímabili, og ekki er að sjá að áætlanir hafi verið gerðar um uppbyggingu af þessu tagi. (Aukning rannsóknaframlaganna hefur nú verið minnkuð vegna kreppunnar, en það breytir ekki því að hvorki voru gerðar metnaðarfullar áætlanir né byrjað að ráða fólk í stórum stíl á þeim þrem árum sem liðu fram að hruni.)
Þegar HÍ auglýsti eftir sviðsforsetum yfir fræðasvið sín fimm í fyrra fékk skólinn samtals aðeins 25 umsóknir. Enginn útlendingur sótti um, þrátt fyrir yfirlýsingar um að ráðnir skyldu öflugir leiðtogar sem leitt gætu skólann að því markmiði að komast framarlega á alþjóðavettvangi. Augljóst virðist að ekki hafi verið auglýst erlendis, hvað þá að reynt hafi verið að laða í þessi störf fólk með feril að baki sem gæfi til kynna að það hefði burði til að vinna umrætt verk.
Á síðustu fimm árum eða svo hefur Tölvunarfræðiskor HÍ hnignað gríðarlega á sviði rannsókna, af því að hún hefur hrakið frá sér tvo, og bægt frá sér öðrum tveim, af bestu vísindamönnum landsins, sem hafa að baki feril sem er margfalt öflugri en samanlagt framlag þeirra níu fastakennara sem eftir eru í skorinni, mælt á þeim kvörðum sem HÍ hefur sett sér. Á þetta horfðu núverandi og fyrrverandi rektor HÍ, og viðkomandi deildarforsetar, en aðhöfðust ekki. Nýlegar auglýsingar um stöður og sókn í þær benda til að ekki sé leitað út fyrir landsteinana til að laða til skólans bestu kennarana og vísindamennina sem völ er á.
Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík hefur það yfirlýsta markmið að komast í fremstu röð alþjóðlegra rannsóknaháskóla. Skólinn hefur vissulega vaxið að styrk síðustu árin, en engu að síður hefur forysta hans verið ófær um að framfylgja þessari yfirlýstu stefnu. Af þeim tugum akademískra starfsmanna sem ráðnir hafa verið síðustu tvö árin eru hlutfallslega fáir sem ná því máli sem þarf til að byggja skóla af því tagi sem um er rætt, og varla hafa byggst upp nokkrir nýir öflugir rannsóknahópar, en þeir eru lykilatriði í slíkri uppbyggingu. (Rétt er að taka fram að sá sem þetta ritar hefur fengið tækifæri og stuðning til að byggja upp stóran rannsóknahóp í HR, en aðrir sem ekki síður hefði átt að styðja til slíks hafa ekki fengið nauðsynlegan stuðning.)
HR hefur líka hrakið frá sér gott fólk, t.d. í fjármálaverkfræði, þar sem öflugur erlendur vísindamaður, upphaflega ráðinn til að byggja upp rannsóknahóp og meistaranám á sviðinu, var gerður að undirmanni sviðsstjóra sem hafði ekki lokið doktorsprófi, og starfar ekki einu sinni á umræddu fræðasviði. Vegna skilningsleysis yfirmanna skólans sá þessi erlendi visindamaður sér ekki fært að sinna því hlutverki sem honum hafði verið falið og sagði hann sig því frá starfinu.
Síðast en ekki síst hefur forysta HR eytt mestöllum kröftum sínum síðustu tvö árin í hverja hugmyndina á fætur annarri sem miðaði að því að fegra ímynd skólans, í stað þess að byggja upp styrk innan hans. Þar er fyrst að nefna umfangsmikinn og óhóflega dýran samning við MIT, sem hefði þýtt að HR hefði getað ráðið tugum færri vísindamenn en ella, en fengið í staðinn gestakennara frá MIT og getað skreytt sig með þessu fræga nafni. Til allrar hamingju var horfið frá þessari fyrirætlan. Næst var, í augljósri andstöðu við ráðleggingar alþjóðlegrar ráðgjafanefndar skólans, reynt að gera "sjálfbærni" að aðalsmerki skólans, þótt nánast engar rannsóknir innan skólans falli undir þetta loðna hugtak, samtímis því sem reyndustu akademísku starfsmenn skólans eru algerlega sniðgengnir í uppbyggingarstarfi. Síðasta klisjan var að HR yrði miðstöð "viðskipta, tækni og hönnunar". Þetta voru aldrei meira en innantóm orð, og byggðist auk þess á þeirri hugmynd að HR sameinaðist Listaháskólanum, sem nokkuð augljóst var að ekki hefði áhuga á eða ávinning af slíkri sameiningu.
Vísinda- og tækniráð
Eftir fjölmiðlaumræðuna í síðustu viku er varla þörf á að ræða algert lánleysi VTR sem forystuafls í íslensku vísindastarfi. Ráðið olli trúnaðarbresti í vísindasamfélaginu (og braut líklega bæði stjórnsýslulög og lög um hlutverk sitt) með eftirminnilegum hætti í fyrra þegar það auglýsti svokallaða "markáætlun", sem snerist um ímynduð tækifæri til rannsókna, þar sem búið var að útiloka langflestar greinar sem einhver styrkur er í á Íslandi. Skipan nýs ráðs fyrir skemmstu olli því svo að upp úr sauð meðal margra vísindamanna sem eru orðnir langeygðir eftir framförum í stjórn vísindamála. Í nýja ráðinu er allt of mikið af fólki sem hefur litla eða enga reynslu af árangursríkri uppbyggingu á vísinda-, háskóla- eða nýsköpunarstarfi, auk fólks sem sat í síðasta ráði og ber því ábyrgð á hneykslinu í fyrra.
Menntamálaráðuneytið
Í Menntamálaráðuneytinu, sem stýrir væntanlegri endurskipulagningu háskóla- og vísindastarfs í landinu, er enginn starfsmaður með nokkra teljandi reynslu af háskólastarfi, hvað þá af slíku starfi á alþjóðlegum vettvangi. Ráðherra hefur hins vegar ráðið sér ráðgjafa sem virðist fara með forystu í endurskipulagningarmálunum. Sá ráðgjafi hefur ekki einu sinni lokið doktorsnámi, hvað þá að hann hafi reynslu af háskólastarfi sem geri honum kleift að vera í forystu í svo veigamiklu máli. Viðhorfið sem hér býr að baki er litlu skárra en hjá bankastrákunum fyrir fáum árum, sem þóttust geta byggt upp framúrskarandi bankastarf á alþjóðlegum vettvangi, þótt þeir hefðu enga reynslu af slíku starfi. Þetta er reyndar útbreitt viðhorf á Íslandi, ekki síst í stjórnsýslunni, sem mætti kalla fúskspillingu, því það gengur út á að ekki þurfi reynslu eða skilning á málum til að geta stýrt þeim; hægt sé að setja hvaða nýgræðing sem er í hvaða starf sem er.
Í byrjun júlí átti undirritaður fund með umræddum ráðgjafa og benti á að engin reynsla væri til staðar í ráðuneytinu í þessum málaflokki. Því var til svarað að ráðuneytið hefði á sínum snærum slíkt fólk, og voru í því sambandi nefndir tveir menn, sem annar er fyrrverandi og hinn núverandi háttsettur stjórnandi í Háskóla Íslands. Einnig var sagt að í júlí myndi mikið gerast í þessum málum innan ráðuneytisins, talað yrði við rektora HÍ og HR um endurskipulagninguna, og verið væri að setja á laggirnar vinnuhóp sem stýra myndi ferlinu.
Augljóslega er yfirvofandi sú hætta að stjórnendur núverandi stofnana semji sín á milli, með þegjandi samþykki ráðherra, um hvernig eigi að skipa málum. Hætt er við að það yrði gert með (hugsaða) hagsmuni viðkomandi stofnana og stjórnenda þeirra að leiðarljósi, en ekki byggt á vandlega ígrundaðri áætlun um hvers konar háskólastarf sé farsælast að byggja upp hér á landi, óháð hagsmunum núverandi stofnana og stjórnenda.
Lokaorð
Á Íslandi er hægt að byggja upp miklu betra háskólastarf en við eigum nú. Það er ekki auðvelt, en samt afar einfalt. Til þess þarf bara að ráða mikið af öflugu vísindafólki, og búa því umhverfi sem það þrífst í. Með því að nota það fé sem nú er eyrnamerkt í rannsóknir (þ.á.m. 40% af launum allra akademískra starfsmanna ríkisháskólanna) væri hægðarleikur að stórfjölga góðu vísindafólki í landinu á nokkrum árum, en það er eina raunhæfa leiðin til að efla vísindastarfið. Núverandi forysta háskóla- og vísindamála hefur sýnt að hún getur ekki byggt upp slíkt starf á skilvirkan hátt. Eina leiðin út úr þessum ógöngum er að ráðherra setji yfir endurskipulagningu háskóla- og vísindastarfsins verkefnisstjórn fólks sem hefur reynslu af slíku starfi (þ.á.m. af alþjóðavettvangi), og feril sem sýnir að það geti byggt upp öflugt starf, á alþjóðlega mælikvarða, bæði í kennslu og rannsóknum. Þetta fólk verður að standa utan stjórnendahóps núverandi háskóla og stofnana og nauðsynlegt er að sækja a.m.k. hluta þess til útlanda.
Vilji ráðherra hins vegar ekki að lagt verði kapp á að byggja upp slíkt háskólastarf hér, þar sem rannsóknir verða stórefldar, á hún að segja frá því með ótvíræðum hætti, en ekki láta þá niðurstöðu verða afleiðingu af baktjaldamakki fólks sem hefur sýnt að það er ófært um að marka skýra stefnu og fylgja henni.
Hver svo sem niðurstaðan verður er tími til kominn að hætta þeim blekkingaleik sem einkennt hefur umræðuna um háskóla- og vísindastarf á Íslandi. Við erum veikburða, við höfum ekki verið að vanda okkur, og við þurfum að taka okkur tak ef við ætlum okkur eitthvað á alþjóðavettvangi, fremur en að verða að athlægi fyrir innantómt skrum.
Höfundur er prófessor í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík
11.2.2009 | 11:10
Critical Notes on the Abuse of Bibliometric Data
I have recently been informed by Catuscia Palamidessi that the editorial board of the journal Mathematical Structures in Computer Science has put together a critical note on the (ab)use of bibliometric data, which will appear in the issue 19.1 of that journal. The note has been written by the editor in chief, Giuseppe Longo, and subscribed by all the members of the editorial board of that journal.
The note expresses the worries of the scientists in the board about
- the way the evaluation of research activity is evolving in many countries,
- the general trend to use criteria purely based on numbers and citation indexes in judging the quality of researchers and
- the fact that the management of the data used in the numerical evaluations is entrusted to private agencies, whose methodologies and software might be rather dubious or cannot be subjected to scrutiny by the research community.
The first journal according to ISI (...) is the 195th according to CiteSeer; the 2nd according to ISI does not appear in CiteSeer; the 6th for ISI is 958th for CiteSeer... Conversely, the 1st for CiteSeer (...) is 26th for ISI; the 4th for CiteSeer (...) is 122nd for ISI
What is the situation regarding the use of citation indexes and impact factors in Iceland? Are we already abusing them?
Similar concerns have been raised by others. See, e.g., the talk "Bibliometric Evaluation of Computer Science - Problems and Pitfalls" by Friedemann Mattern (Institute for Pervasive Computing, Department of Computer Science, ETH Zurich).
There is also a very interesting joint report from three mathematical boards, which is definitely worth reading.
Finally, the "Sector Overview Report from the Computer Science and Informatics Sub-Panel (UoA 23)" after the British nationwide "Research Assessment Exercise 2008" (available at http://www.rae.ac.uk) includes the following passage:
We frequently found that citation counts were poorly correlated with the sub-panels assessment of the impact of the work examined. Citations also varied widely between research areas. For instance, much of the highly significant theoretical research, in which the UK is world leading, typically attracts low citation counts. Despite these low citations, the work is often found to have profound long-term impact on practical aspects of the field.
(The emphasis is mine and is not present in the original text.)
I hope that some of you will find these contributions interesting. I thank Catuscia Palamidessi and Vladimiro Sassone for pointing them out to me. Feel free to distribute this post as widely as you see fit.
11.12.2008 | 17:35
...fallið verður frá framlögum í rannsókna- og tækjasjóði...
Kæru vísindamenn.
Ef þetta gengur eftir getum við pakkað saman og flutt til útlanda eða farið að þvo tyggjó af götum bæjarins í sjálfboðaliðastarfi (af nægu er að taka þar!).
Atvinnustefna á Íslandi gengur nefnilega út á malbik, steypu og möl.
Höfum við ekki lært nokkurn skapaðan hlut af bankahruninu, steypumusterin eru tálsýn.
Finnum leiðir til að beina kröftum þeirra sem missa vinnuna í frumkvöðlastarf, í sprotafyrirtækjum eða í samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla. Kostnaðurinn yrði aðallega í formi launa, en ekki í rekstri stórvirkra vinnuvéla, bora og kostnaði við stál og steinsteypu.Tekjuskattur og útsvar hækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar