7.5.2008 | 12:21
Opið bréf til Vísinda- og tækniráðs
Í morgunblaðinu í gær birtist grein eftir Einar Steingrímsson prófessor við Háskólan í Reykjavík. Bréfið fjallar um Markáætlun Rannsóknarmiðstöðvar Íslands um öndvegissetur, sem er í grunninn ágætishugmynd, en sem eins og Einar bendir á setur frekar undarlegar áherslur.
Einar Steingrímsson: Opið bréf til Vísinda- og tækniráðs
Nýlega birti Vísinda- og tækniráð auglýsingar um "Markáætlun á sviði vísinda og tækni 2009 til 2015." Það má segja þessari áætlun til hróss að þetta er í fyrsta skipti sem kynntir eru styrkir til vísinda- og tæknirannsókna á Íslandi sem gætu haft veruleg áhrif, því aldrei áður hafa staðið til boða styrkir sem eru nógu stórir til að leyfa öfluga uppbyggingu rannsóknahópa og -setra og sem gætu þannig haft varanleg áhrif á þróun rannsókna.
Það er því reiðarslag fyrir flestallt vísindafólk landsins að lesa lýsingarnar á þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að eiga kost á styrkjum í þessari áætlun, og á hvaða sviðum ráðið sér "sérstök tækifæri" í þessu efni.
Í tækifærunum sem lýst er vantar nefnilega ýmislegt sem illa má vanta á slíkan lista. Til dæmis virðist ráðið ekki sjá nein tækifæri í raunvísindum, verkfræði, hugvísindum (umfram íslenska menningararfinn) og í upplýsingatækni (nema sem þjónustu við afþreyingariðnað). Ekki er heldur að sjá að félagsvísindi eigi upp á pallborðið hjá ráðinu, nema á mjög þröngum sviðum.
Það sem er þó ef til vill verst í þessum tillögum er hin skilyrðislausa krafa um samstarf við fyrirtæki. Það er sérkennilegt að Vísinda- og tækniráð, sem á að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu, skuli gera slíka kröfu, sem augljóst er að útilokar öll grunnvísindi, og einnig margar hagnýtar greinar vísinda.
Hvers konar fyrirtæki sér ráðið til dæmis fyrir sér að þeir starfi með sem hyggja á "rannsóknir í menntun og kennslu", sem er þó eitt af tækifærunum sem ráðið sér? Ef eitthvað áhugavert skyldi koma út úr slíkum rannsóknum, sem gæti þróað menntakerfið "svo að það standi betur undir sívaxandi kröfum um þekkingu, virkni, sköpunarkraft, frumkvæði og sveigjanleika", af hverju þyrfti þá fyrirtæki til að koma slíkum bótum í kring?
Og með hvers konar fyrirtækjum ættu þeir að starfa sem stunda rannsóknir á handrita- og bókmenningu? Af hverju ætti Vísinda- og tækniráð að vilja blanda fyrirtækjum í slíkar rannsóknir? Er það vegna þeirrar "áherslu sem nú er lögð á útrás og alþjóðlega ímynd landsins?" Finnst Vísinda- og tækniráði tilgangslitið að stunda rannsóknir á menningararfi þjóðarinnar nema þær sé hægt að nota í útrás einhverra fyrirtækja?
Það bætir ekki úr skák að meðferð umsókna um þá styrki sem auglýstir eru verður með sama hætti og einkennt hefur starf Rannsóknasjóðs, og sem hefur sætt stöðugri gagnrýni vísindafólks í landinu. Í fyrstu umferð, þar sem 10 hugmyndir verða valdar sem komast áfram í samkeppninni, verða hugmyndirnar metnar af íslenskum starfshópi. Þótt erlendir aðilar verði fengnir til að gefa umsagnir um þær umsóknir sem komast í úrslit munu þeir þó ekki bera saman ólíkar umsóknir, heldur verður endanlegt val líka í höndum innlends starfshóps, og að lokum í höndum Vísinda- og tækniráðs.
Eins og margoft hefur verið bent á er á flestum sviðum vísinda nánast ógerlegt að finna íslenska aðila sem eru faglega hæfir til að meta umsóknir, og ekki samtímis vanhæfir vegna kunningsskapar eða annarra tengsla. Því er yfirvofandi sú hætta að valið á hugmyndum sem komast í úrslit í samkeppninni, sem og endanlegt val á styrkþegum, verði gert á öðrum grundvelli en hlutlausu, faglegu mati. Það kann ekki góðri lukku að stýra í upbbyggingu vísinda- og tæknirannsókna.
Þessi svokallaða Markáætlun Vísinda- og tækniráðs er ekki vel til þess fallin að laða fram bestu kraftana í íslensku vísinda- og tæknisamfélagi.
Því skora ég á Vísinda- og tækniráð að vísa ekki frá neinum hugmyndum á grundvelli þess að þær falli ekki innan þess þrönga ramma sem settur hefur verið í auglýsingunum, né heldur vegna þess að þær snúist ekki um samstarf við fyrirtæki. Helst ætti ráðið að birta nýja auglýsingu þess efnis að óskað sé eftir umsóknum af öllum sviðum vísinda- og tæknirannsókna, og að ákvarðanir um styrki verði eingöngu byggðar á gæðum þeirra vísindamanna sem sækja um og hugmynda þeirra.
Höfundur er prófessor í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:26 | Facebook
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.