Hálfguðir eða brjálæðingar

Í lesbók laugardagsins, 19 apríl birtist pistill eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur þáttagerðarmann, undir yfirskriftinni, "Brjálaðir vísindamenn eða hálfguðir í hvítum sloppum". Af miklu innsæi rakti hún sýn almennings á vísindamenn, sem sveiflast oft milli öfga. Vísindamenn eru stundum álitnir örlítið, eða mikið til, bilaðir og því oft kjörnir í hlutverk illmenna í bókmenntum og myndmiðlum. Hinn póllinn er að tylla vísindamönnum á stall guða, e.t.v. vegna þess að þess að þekking er vald eða vegna þess að guðirnir eru daprir í tjáskiptum. Allavega leggur Anna Kristín áherslu á að sérþekking vísindamanna getur virkað mjög fráhrindandi á leikmenn og einnig fréttamenn, sem er mjög bagalegt fyrir þjóðfélagið.

Það er vísindasamfélaginu í hag, og þjóðinni einnig, að þekkingu sé viðhaldið, að við öflum nýrrar þekkingar á mikilvægum vandamálum og lykil spurningum, og að kostir og takmarkanir vísindalegra aðferða séu sem flestum ljósar. Þá á þjóðin betri möguleika á að nýta sér vísindalega þekkingu til að taka mikilvægar ákvarðanir, t.d. um stofnfrumur, virkjanir og sjó eða landnýtingu. Vísindamenn hafa gott af því að stíga tvö skref aftur á bak og spyrja, hvers vegna rannsóknir þeirra skipta máli? 

Pistill Önnu birtist hér, með góðfúslegu leyfi höfundar. Athugið, tilvitnanir í pistillinn tilgreini birtingu í Lesbók Morgunblaðsins, 19 apríl 2008.

"Fyrir nokkrum árum var haldin keppni á vegum Háskóla Íslands. Skorað var á börn að skila inn myndum af vísindamönnum. Flestar myndanna sýndu karla í hvítum sloppum á tilraunastofum. Gott ef þeir voru ekki flestir með hárið út í allar áttir ala Einstein og ótal svipmyndir brjálaða vísindamannsins í teiknimyndum og kvikmyndum. Það er umhugsunar vert að dæmigerður vísindamaður í heimi barnabókmennta og teiknimynda er einmitt sá í hvíta sloppnum. Hann hlær tryllingslegum hlátri áður en hann hellir saman grængolandi vökvum og úr verður vopn sem gæti tortímt heiminum öllum. Það er líka þannig í heimi aksjónkallanna. Fyrir nokkrum árum varð ég alveg þokkalega kunnug í heimi þeirra, um leið og ég keypti uppbyggjandi dót fyrri son minn. Höfuðóvinir aksjónmannanna góðu, aðal vondukallarnir voru þá þeir Doktor X og prófessor Gangrene eða prófessor Gröftur. Þeir kumpánar áttu fátt sameiginlegt- nema það, ef marka má nafngiftirnar, að báðir voru  þeir langskólagengnir menn. Doktor X var og er alveg dæmigerður vöðvakall, hann skartaði miklum svörtum hanakambi og ygglibrún.  Gröftur prófessor er frekar renglulegur - og það er vaxtarlag sem ekki sést alltof oft í heimi aksjónmanna, hvorki á góðum né vondum-  en hann var einmitt tryllta týpan, með grænt hárið út í allar áttir. Ætli megi rekja rætur þessa minnis lengra en til Einsteins? Hárið á prófessor Greftri var að mig minnir eiginlega næstum því  eins og á snákarnir sem hlykkjast út úr höfði Medúsu. Ætli hársrætur prófessorsins séu ekki bara háklassískar?

En hvað um fjölmiðla og vísindi.  Vísindi og rannsóknir segja menn skipta alltaf meira og meira máli.  Í næsta orði segja þeir, það skortir á að þeim sé miðlað til fólks.  Sérstaklega finnst mörgum það eiga við um raunvísindi, sem séu orðin slíkar launhelgar að þau séu algerlega lokuð þeim sem ekki hafa klæðst hvíta rannsóknarstofusloppnum.  Orðalag og orðfæri sé svo sérhæft og tæknilegt að það sé öllum hulið að átta sig á því um hvað málið snýst. Undir þetta myndu nú margir taka, sem hafa lesið litlar og grannar greinar sem oft birtast í Morgunblaðinu.  Í greinunum segir frá doktorsnafnbótum íslenskra vísindamanna og lokaritgerðum þeirra. Nafn lokaritgerðarinnar fylgir og oft eru flestir lesendur litlu nær eftir að hafa lesið útdráttinn, hvað sem þar segir um hin mikilvægu oxavarnaensím, Cerúlóplasmín og súperoxíð dismútasa. En hvað þá með alþýðufræðsluna og það hlutverk fjölmiðla að koma upplýsingum til skila á mannamáli. Felst kannski í þeirri nálgun enn meiri aðskilnaður milli vísindanna og þekkingarinnar, sem þar er  aflað og útþynntu útgáfunnar sem við ráðum flest við að tileinka okkur.  Danskur blaðamaður, Gitte Meyer hefur lengi skrifað um vísindi og líka kennt blaðamennsku . Hún veltir því fyrir sér af hverju almenn umræða um vísindi sé mikilvæg. Jú segir hún, með vísindum er hægt að stjórna ýmsu í náttúrunni og skapa auð. Sú stjórn er samt ekki alger og við sjáum ekki alltaf fyrir hvað möguleikar felast í nýrri tækni og þekkingu.  Meyer telur að mesta hindrunin í vegi upplýsandi umfjöllunar og umræðu um vísindi sé sú óttablandna virðing sem margir beri fyrir sérfræðinni og þeirri vissu að vísindaleg þekking sé almennri skynsemi æðri.  Í leiðbeiningum hennar til blaðamanna sem ætla sér að fjalla um vísindi eða eru settir til þess felst að það sé full ástæða til að bera virðingu fyrir flóknum og erfiðum viðfangsefnum en það sé ekki ástæða til að óttast þau. Meyer bendir á að umfjöllun um erfðabreytt matvæli  og stofnfrumurannsóknir snúist ekki bara um sérfræði heldur um pólitískar ákvarðanir. Engu að síður sé oft sagt að almenningur geti ekki tekið afstöðu til slíkra mála því hann kunni ekki nokkur skil á þeim.  Því er Meyer ekki sammmála, hún tekur dæmi af klónun húsdýra. Þar sé full ástæða til að velta upp grundvallarspurningum; til hvers séu rannsóknirnar, við hverju megi búast og hverjar geti orðið hliðarverkanirnar af því að einrækta dýr.  En um einmitt þær rannsóknir hefur hún eftir tveimur vísindamönnum að það sé nauðsynlegt að uppfræða fólk og það sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur taki afstöðu, grunnhyggin umfjöllun um einræktun manna hafi litað afstöðu fólks og gert það fyrirfram andsnúið einræktun húsdýra. Nákvæmlega með þessum orðum sé verið að upphefja vísindin meira en ástæða sé til og það að vísindamennir viti en almenningur sé vitlaus. Áherslan sé alltof þung á sérfræðin í stað grundvallarspurninga. Blaðamenn eigi að kunna að spyrja spurninga sem kvikni af almennri skynsemi og týnast ekki í sérfræðiflækjunum."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband