29.3.2008 | 11:13
Ráðið í 40 nýjar akademískar stöður - Svafa Grönfeldt
Birtist í Viðskiptablaðinu föstudaginn 28. mars 2008
Meistaranám í verkfræði samtímis í Reykjavík, Boston og Singapore
Í kjölfar samstarfs HR og MIT í Boston um uppbyggingu meistaranáms í verkfræði hefst nýr kafli í háskólastarfi hér á landi. Beitt verður nýstárlegum kennsluaðferðum þar sem sérfræðingar HR og MIT kenna samtímis í þremur heimsálfum. 500 manns starfa nú við HR frá 23 löndum. Nýbygging HR er að rísa í Vatnsmýrinni og er talin kosta á bilinu 10-11 milljarða króna. Svafa Grönfeldt, rektor skólans, segir að fjármögnun allra stærstu verkefna sé tryggð.
"Við byggjum skólann upp með það fyrir augum að hann verði alþjóðlegur. Til að það markmið náist þarf starfsfólk skólans að vera frá öllum heimshornum og nemendur sömuleiðis. Við einbeitum okkur að því að skapa aðstæður sem laða að sérfræðinga frá mörgum af bestu skólum heims og tryggjum þannig íslenskum fræðimönnum og nemendum fyrsta flokks fjölþjóðlegt vinnuumhverfi. Þannig undirbúum við Íslendinga best fyrir framtíðina. Með þessum hætti geta nemendur HR notið þess besta erlendis frá, stundað nám með fólki frá ólíkum menningarheimum og á sama tíma starfað undir leiðsögn framúrskarandi sérfræðinga og stjórnenda hér á landi. Við erum í raun að flytja heiminn heim."
Hlutverk HR er að auka samkeppnishæfni nemenda og reyndar þjóðfélagsins alls. Auk sérfræðiþekkingar er talið að alþjóðleg færi og samskiptaleikni muni verða þeir eiginleikar sem verða hvað eftirsóttastir á vinnumarkaði 21. aldar. Námsframboð HR og kennsluaðferðir miða að því markvisst að efla þessa þætti. Íslenska er og verður fyrsta tungumál skólans. HR er íslenskur skóli sem þjónar íslenskum háskólanemum fyrst og fremst. Hins vegar bjóðum við núna 137 námskeið á ensku og meistaranám skólans verður í fyllingu tímans allt í boði á ensku. Þetta gerum við til að auka aðgengi erlendra nemenda og kennara að skólanum. Á árunum 2010-11 munum við hefja markaðssetningu skólans erlendis með tilkomu aðstöðu á heimsmælikvarða í Vatnsmýrinni. Með öflugri uppbyggingu háskólanets HR opnast samhliða þessu tækifæri fyrir íslenska nemendur að taka hluta af námi sínu í HR erlendis. Þessi þjónusta skólans er í mikill sókn og á þessu ári er þreföldun á fjölda umsókna HR-inga um skiptinám við einhvern af samstarfsskólum okkar víða um heim," segir Svafa Grönfeldt.
Það er margt fram undan í starfsemi HR. Fyrsta steypan rann í mót nýbyggingar skólans í Vatnsmýrinni fyrir fáeinum vikum og segir Svafa áætlað að flutt verði í stóran hluta nýja húsnæðisins haustið 2009. Auk þess verður ráðið í 40 akademískar stöður við skólann á næstu misserum. Nýbyggingin í Vatnsmýrinni er þannig hönnuð að stórt yfirbyggt torg verður í miðju hennar sem allar deildir skólans ganga út frá. Hönnunin miðar að því að deildirnar komi allar saman í miðrýminu og hugmyndin er sótt til ítalskrar hönnunar frá miðöldum sem stuðlar að flæði og samskiptum milli fólks, bæði kennara og nemenda og almennings sem vill heimsækja skólann. Hugmyndafræði byggingarinnar er ekki síst í samræmi við óskir atvinnulífsins sem leggur áherslu á sem breiðastan grunn í menntun nemenda. Vissulega gerum við miklar kröfur um sérfræðiþekkingu, en um leið vill skólinn að nemendur geti átt samskipti við nemendur og kennara annarra fræðigreina. Þannig er nú lífið einfaldlega þegar við hefjum dagleg störf og best að kynnast því einnig í námi."
Byggingin kostar 10-11 milljarða kr.
"HR einbeitir sér sérstaklega að sviðum sem tengjast viðskiptum og lögfræði, tækni og heilsu. Í stað þess að dreifa kröftunum einbeitum við okkur að þessum kjarnafræðasviðum. Við höfum þann metnað að vera ávallt fyrsti valkostur nemenda og starfsmanna á þessum sviðum. Hugmyndin er sú að verja þeim fjármunum sem við höfum til umráða til þess að dýpka og styrkja núverandi starfsemi skólans fremur en að fjölga mikið nemendum eða deildum. Sérstaða HR er einstaklingsmiðuð þjónusta við nemendur sem endurspeglast í takmörkuðum fjölda í kennslustundum og hagnýtum kennsluaðferðum skólans. Samkvæmt könnun Ríkisendurskoðunar meðal háskólanema 2007 voru gæði kennslu mest í Háskólanum í Reykjavík. Í þessari sömu úttekt kom fram að kennsla, aðstaða og aðgengi að kennurum var best í HR, en akademísk staða mest hjá HÍ. Akademísk staða byggir á fjölda rannsókna sem birtar eru í ritrýndum akademískum tímaritum. HR er aðeins tíu ára gamall skóli og það að hafa náð því að vera með mestu gæði í kennslu á þeim tíma finnst okkur vera talsvert afrek. Við erum fyrsti valkostur nemenda sem sækjast eftir góðri kennslu og virkum tengslum við atvinnulíf og erlenda háskóla. Stökkbreyting hefur átt sér stað undanfarin misseri í rannsóknarvirkni við HR og við höfum markað okkur framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um uppbyggingu framsækinna rannsókna við skólann. Mikil aukning er í birtingum rannsókna HR-inga úr öllum deildum og fékk skólinn m.a. nýlega styrk frá Evrópusambandinu upp á 120 milljónir kr. til rannsókna í lagadeild, sem er samstarfsverkefni fjögurra háskóla í Evrópu. Liður í uppbyggingu skólans er að við erum núna að ráða í 40 akademískar stöður til viðbótar við einvala lið skólans. Við sækjum hratt fram og teljum okkur jafnframt hafa fjármagnað okkur fyrir þann vöxt sem er fram undan," segir Svafa. Eignarhaldsfélagið Fasteign fjármagnar og sér um framkvæmdir við nýbyggingu HR og mun eiga bygginguna og leigja til baka til HR til næstu áratuga. Auk þess hefur HR kauprétt á henni á 5 ára fresti," segir Svafa. Þróunarsjóður HR mun standa straum af uppbyggingu mannauðs og háskólanets skólans.
Háskólabyggingin, sem nú er að rísa, verður fullbyggð alls liðlega 40.000 fermetrar að stærð. Það er áætlað að hún kosti á bilinu 10-11 milljarða króna. Það er ÍSTAK sem bauð lægst í uppsteypu og aðalverktöku húsbyggingarinnar, en fram undan eru fjölmörg útboð á einstaka verkþáttum. Verkefnið er afar metnarfullt. Svafa segir að hægt hefði verið að reisa ódýrari byggingu en að óskin hafi verið að húsnæðið væri sveigjanlegt, kennslu- og rannsóknaraðstaða yrði á heimsmælikvarða og að húsið yrði jafnframt kennileiti í Reykjavík sem félli vel að umhverfi sínu. "En fyrst og fremst vildum við byggja háskóla eins og best gerist fyrir Íslendinga. Við hugsum þetta þannig að Íslendingar komi til náms í Vatnsmýrina, en njóti leiðsagnar innlendra og erlendra kennara frá Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Við höfum í þessu samhengi talað um að fá heiminn heim. Þetta er nokkuð algengt módel víða um heim til þess að bregðast við því sem kallast "brain drain", eða þekkingartap út úr landinu, og til að stuðla að "brain gain", eða þekkingarávinningi inn í landið. Síðustu árin hafa jaðarríki eins og Íslandi ráðist í uppbyggingu fyrirmyndar háskólasvæða og laða vísindamenn hvaðanæva að. Áður var einungis að finna bandaríska og breska skóla á listum yfir topp háskóla heims. Nú eru meira en 30 lönd með skóla á slíkum listum. Við leggjum allt kapp á að fá Íslendinga heim sem hafa starfað í útlöndum og eru tilbúnir að koma heim eftir langa útiveru. En við leggjum líka áherslu á að fá til okkar einstaklinga sem skara fram úr á hverju sviði fyrir sig, jafnt útlendinga sem Íslendinga. Hjá HR eru núna 500 starfsmenn frá 23 löndum og við erum nú þegar búin að ráða í tólf af þeim 40 akademísku stöðum sem til stendur að ráða í á næstunni. Þetta er því að verða mjög öflugur pottur þar sem blandast saman fjölbreytt fræðasamfélag og menningarheimur."
Stuðningur atvinnulífsins
Svafa segir að rekstur skólans hafi gengið mjög vel. Með ráðdeild í rekstri og í góðærinu undanfarið hefur skólinn safnað eigin fé, m.a. með frjálsum framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. HR er jafnframt með þjónustusamninga við ríkið sem tryggir honum ákveðin fjárframlög með hverjum nemanda. Þar fyrir utan innheimtir HR skólagjöld. Þau eru um 25% af tekjum skólans en 75% teknanna koma eftir öðrum leiðum. Um 50% teknanna eru vegna þjónustusamninga við ríkið og um 25% frá atvinnulífinu, Símenntun og eftir öðrum leiðum. Stjórnvöld sýndu mikla framsýni þegar skilyrði voru sköpuð fyrir ný rekstrarform á háskólastigi. Jafnræði er með einkareknu háskólunum og þeim ríkisreknu þegar kemur að þjónustusamningum við ríkið vegna kennslu en framlög ríkisins til rannsókna o.fl. eru hins vegar enn margföld til ríkisreknu háskólanna. Árangurinn af samkeppni í kennslu á háskólastigi hefur skilað gríðarlegum árangri í auknum gæðum kennslu undanfarin ár og því er reiknað með að hljóti að styttast mjög í það að aðgengi að rannsóknarfé verði einnig jafnað. Þá ætti líka að sjálfsögðu að heimila skólagjöld í ríkisreknu háskólunum ef þeir þess óska. Skólagjöld við HR eru 127.000 krónur á önn. Svafa segir að það sé markmið skólans að halda skólagjöldum í hófi. Þau eigi ekki að koma í veg fyrir að fólk geti stundað nám við HR. Skólinn hefur m.a. frá upphafi boðið upp á styrki til nýnema og til þeirra nemenda sem ná frammúrskarandi árangri í námi. Hins vegar sé leitað markvisst eftir stuðningi atvinnulífsins og skynsemi höfð að leiðarljósi við rekstur skólans í þeim tilgangi að geta boðið upp á alþjóðlega menntun fyrir íslensk skólagjöld. "Fjölmörg fyrirtæki hafa stutt dyggilega við bakið á HR í gegnum tíðina, m.a. Glitnir, Landsbankinn, Kaupþing, Straumur, Síminn, Sjóvá og VÍS, Eimskip, Orkuveita Reykjavíkur, KPMG og Deloitte, auk verkfræðistofa og fjölmargra annarra fyrirtækja. Jafnfamt hefur stuðningur Reykjavíkurborar við skólann verið okkur ómetanlegur," segir Svafa. HR er að meirihluta í eigu sjálfseignarstofnunar Viðskiptaráðs Íslands og aðrir eigendur eru Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Til að gera skólanum kleift að stíga næsta skref í uppbyggingu sinni og hrinda framtíðarsýn skólans í framkvæmd var á síðasta ári ákveðið að fjölga í hópi huthafa og styrkja skólann þannig enn frekar fjárhagslega og stjórnunarlega.
Athygli vakti þegar Róbert Wessmann lagði skólanum til einn milljarð króna á síðasta ári. Liðlega 800 milljónir af þeim fjármunum fóru í Þróunarsjóð skólans og er verið að nýta þá núna til uppbyggingar á tækni- og mannauði skólans. Afgangnum var varið til að styrkja eigið fé skólans með auknu hlutafé frá Bakhjörlum HR en í þeirra hópi eru nú þegar Glitnir, Eimskip og Salt Investments. Vonir standa til að fleiri bætist í hópinn á næstu árum. "Fjárhagslegir hagsmunir eigenda skólans eru engir. Skólinn greiðir ekki arð til hluthafa og eigendur geta ekki gengið að eignum skólans, hvorki fjármunum, landrými né öðrum eigum. Ávinningur hluthafa er fyrst og fremst samfélagslegur. Algengt er að einstaklingar og fyrirtæki styrki listir og menningu og bakhjarlar HR töldu að þessum tilteknu fjármunum væri mjög vel varið til uppbyggingar alþjóðlegs háskóla hér á landi. Róbert og aðrir sem styrkt hafa skólann undanfarin ár hafa séð hvers virði öflug samkeppni á sviði háskólamenntunar er. Það er gríðarlega mikilvægt að hér séu fleiri en einn öflugur skóli og raunverulegir valkostir séu fyrir hendi, bæði fyrir nemendur og kennara. Þar sem rannsóknarfé til uppbyggingar á akademískum styrk okkar er takmarkað og við viljum halda skólagjöldum í lágmarki, en á sama tíma bjóða nemendum skólans upp á nám hér á landi sem er jafn gott og best gerist erlendis, þurfum við að fara nýjar leiðir. Við fáum til liðs við okkur leiðandi skóla á hverju fræðasviði. Sköpum spennandi fjölþjóðlegt vinnuumhverfi þar sem landfræðileg lega og sérstaða Íslands er nýtt til hins ítrasta. Þannig vinnum við þvert á landamæri og yfirstígum fjárhagslegar hindranir. Það er þó deginum ljósara að án stuðnings stjórnvalda með auknu frelsi háskólanna og án innspýtingar sem Þróunarsjóðurinn hefur verið frá bakhjörlum HR, hefðum við aldrei getað gert það sem við erum að gera núna," segir Svafa.
Hún segir að eins og staðan sé í efnahagsmálum sé þess vart að vænta að frjáls framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum til skólans verði jafnmikil og undanfarið ár. Mikill léttir sé að hafa náð að fjármagna stærstu verkefnin áður en ástandið á markaðnum breyttist til hins verra. "Við erum fjárhagslega vel sett næstu árin. Stærsta verkefnið núna hefur verið að fjármagna uppbyggingu á mannauðnum þannig að hann verði að sama skapi öflugur og húsakosturinn."
Húsið getur rúmað fullbyggt allt að 5.000 nemendur en núna eru 3.000 nemendur við skólann. Svafa segir að óskastaðan sé sú að um 4 þúsund nemendur séu við skólann. Eins og staðan er núna þarf skólinn að hafna allt að 60% umsækjenda í sumum deildum. "Aðsókn að HR er mikil og við veljum umsækjendur af kostgæfni. Við sækjumst eftir fólki sem sýnir frumkvæði og kraft. Við lítum m.a. til einkunna, skapandi hugsunar, félagsstarfa, íþrótta- og tónlistariðkunar sem og reynslu umækjenda. Við erum líka að leita að fólki sem hefur sýnt ákveðna frumkvöðlahegðun eða látið að sér kveða á öðrum vettvangi," segir Svafa.
Aðkoma erlendra háskóla
Nýjung í starfsemi háskóla á Íslandi er svokallað ráðgjafaráð sem starfar við hliðina á háskólaráði HR. Ráðgjafaráðið hefur það verkefni með höndum að vinna með rektor og stjórnendum skólans að því að styrkja akademíska stöðu skólans á næstu þremur árum og alþjóðavæða hann. Í ráðgjafaráði sitja prófessorar og stjórnendur frá MIT háskólanum í Boston, Northwestern University í Chicago, Columbia University í New York, Exeter University, sem var valinn besti háskólinn í Bretlandi í fyrra, IESE-háskólanum á Spáni, sem var útnefndur besti háskólinn á sviði stjórnunar- og framhaldsmenntunar á sviði viðskipta, og Strathclyde í Skotlandi. Ráðgjafaráðið gefur alla sína vinnu en samstarfið komst á laggirnar í gegnum tengslanet starfsmanna HR. Svafa segir að vinna ráðgjafaráðsins sé ómetanlegt framlag til eflingar skólans. "Ástæðan fyrir því að þessir aðilar vilja taka þátt í stefnumörkun skólans er sú að það er ekki á hverjum degi sem þeir fá tækifæri til að hanna skóla frá grunni. HR hefur stundað nýsköpun í kennslu og sérfræðingar MIT og Columbia koma hingað meðal annars til að gera tilraunir með nýjar aðferðir við kennslu. Við erum komin með fjármögnun til að byggja upp nýja tegund rannsóknarháskóla og skólinn er staðsettur mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ísland og HR hefur margt fram að færa til annarra háskóla. Við þurftum bara smá hugrekki til að láta á það reyna og smá útsjónarsemi við að skilgreina og fjármagna slíkt samstarf. Nýja ráðgjafaráðið er okkur dýrmætur reynslubrunnur sem mun hraða mjög akademískum þroska HR. Ráðgjafaráðið var hjá okkur fyrir tveimur vikum og hefur skilað af sér fyrstu tillögum. Nú er ég með langan aðgerðalista yfir það sem ráðið vill að við gerum á næstu þremur árum til þess að ná því markmiði okkar að verða með framsæknustu skólum í Evrópu. Við gerum okkur engar grillur um að HR verði Harvard eða Yale. Það keppa fáir við þá á næstu árum. Hins vegar hefur indverskum skólum, þar á meðal viðskiptaháskóla einum, tekist að komast í hóp bestu viðskiptaskóla heims á örfáum árum. Svo þetta er hægt. Þeir hafa staðið að uppbyggingu sinni á ákveðinn hátt og við erum að skoða og ætlum m.a. að nýta okkur þeirra aðferðir. Við keppum ekki að því að komast á lista yfir bestu háskóla heims á öllum sviðum heldur viljum við skapa okkar eigið rými og sérstöðu þannig að þeir sem hingað koma til náms og rannsóknarstarfa fái hér eitthvað sem þeir fá ekki svo aðveldlega annars staðar. Við ætlum að gera okkar besta til þess að færa heiminn heim og skapa nýjan vettvang fyrir innlenda og erlenda nemendur og fræðimenn í Reykjavík.
Nýr heimur þeirra bestu
Svafa segir að mikil gerjun sé nú á háskólamarkaði um allan heim. Rótgrónum menntastofnunum sé nú ögrað með tilkomu nýrra framsækina háskóla. Ýmsir gagnrýna nú hefðir við mat á akademískri stöðu háskóla og færa rök fyrir því að háskólar séu orðnir of fjarlægir atvinnulífi og því samfélagi sem þeir þjóna. Stjórnskipulag og akademísk framgangskerfi hamli framþróun þeirra, gæðum kennslu og endurnýjun innan stofnananna. Sem svar við þessari þróun hafa nýir skólar í eigu fyrirtækja, einstaklinga og stofnana sprottið upp víða um heim. Þessi þróun hefur að margra mati leitt til nýsköpunar í kennslu og gert skil skóla og atvinnulífs óskýrari. Þeir framsæknustu á meðal rótgróinna skóla nýta nú vörumerki sín til fjáröflunar. Þekking gengur kaupum og sölum. Háskólanet eru farin að myndast og tækninýjungar gera hindranir vegna landfræðilegrar legu skólanna að engu. Háskólinn í Reykjavík ætlar sér að nýta þessa þróun til fulls.
HR hefur tekið upp samstarf við starfsfólk frá MIT á fjölmörgum sviðum. Undanfarna mánuði hafa fulltrúar MIT verið hér á landi og fulltrúar HR hafa dvalið við MIT á meðan unnið hefur verið að hönnun nýs meistaranáms í verkfræði við HR. Námið hefst í september næstkomandi. Það skemmtilega við þetta nám er að hluti þess verður kenndur samtímis í Singapore, Boston og Reykjavík. Kennarar MIT munu annast kennsluna ásamt kennurum HR og tæknin verður notuð til að flytja fyrirlestrana á milli þriggja heimsálfa. Tveir skjáir og tvær myndavélar verða í kennslurýmum. Leggi nemandi í HR fram spurningu til kennara í Boston birtist mynd af honum á öðrum skjánum í Singapore og Boston og öfugt. Á hinum skjánum er ávallt mynd af kennaranum. VGK-hönnun hefur verið bakhjarl HR við fjármögnun undirbúnings samstarfsins við MIT og lagt mikið af mörkum til þess að koma samstarfinu við MIT á laggirnar.
"Þetta er í fyrsta sinn sem meistaranám fer fram með þessum hætti. MIT hefur verið að þróa þessa tækni og notar okkur núna að vissu leyti í tilraunaskyni. MIT er að flytja út sína þekkingu og við erum vissulega að kaupa af skólanum ákveðna þjónustu en um leið tökum við þátt í tilraun með tækni sem MIT ætlar að innleiða í sína starfsemi. Með þessu samstarfi við MIT hafi myndast náin tengsl milli stjórnenda og kennara á Íslandi og í Boston. Margar hugmyndir hafa fæðst í kjölfarið og þar á meðal fjarnámið. MIT sér marga möguleika á Íslandi, ekki síst á sviði jarðhitafræði og grænnar orku. Við höfum innleitt stóran hluta af tillögum MIT í sambandi við uppbyggingu á verkfræðináminu og nú er að hefjast annar fasi samstarfsins sem kennsla í meistaranámi. Þessi seinni hluti samningsins felur einnig í sér að kennarar okkar verða í þjálfun í Boston og þeirra kennarar koma hingað. En fyrst og fremst erum við að prófa þessa nýju tækni. Þeir hafa prófað þessa aðferð í Singapore og vilja núna bæta fyrsta Evrópulandinu við. Það réð miklu um að auðvelda þetta ferli að fjarlægðin milli Reykjavíkur og Boston er aðeins fjórir og hálfur tími og tungumálaerfiðleikum er ekki fyrir að fara. Nokkrir íslenskir kennarar við HR hafa líka útskrifast frá MIT, sem hjálpaði mjög til við að koma þessum sterku tengslum á milli skólanna," segir Svafa. Auk þess er í uppsiglingu fimm ára rannsóknarverkefni með þáttöku vísindamanna MIT, HR og hóps annarra íslenskra vísindamanna, m.a. á sviði endurnýtanlegra orkugjafa. Fyrst um sinn verður stefnt að því að bjóða upp á fjóra áfanga í meistaranámi í samstarfi við MIT. Að öðru leyti verður meistaranámið að stærstum hluta byggt upp á Íslandi með íslenskum og erlendum kennurum. 60 manna hópur nemenda frá MIT heimsótti HR yfir páskana og von er á öðrum 50 manna hópi frá Columbia-háskóla í júní.
En fleiri samstarfsverkefni á borð við þessi eru í undirbúningi. Von er á sérfræðingum frá London Business School í apríl til að gera úttekt á viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þeir munu starfa með stjórnendum og kennurum deildarinnar við mótun framtíðarstefnu og skipulags framhaldsnáms við deildina. Fyrir hópnum fer fyrrverandi aðstoðarrektor London Business School. HR hefur nú aukið enn frekar samstarf sitt við Columbia-háskólann í New York og munu fyrstu HR-ingarnir sækja tíma í New Your í sumar á vegum kennslu- og lýðheilsudeildar HR. Sú deild mun einnig hleypa af stokkunum nýju stjórnendanámi fyrir heilbrigðsstarfsmenn í haust (MPHe) með þátttöku kennara frá HR, McGill-háskóla í Kanada og Columbia University. Síðast en ekki síst hefur tekist að koma á samstarfi við IESE, einn af leiðandi viðskiptaháskólum Evrópu, á sviði símenntunar fyrir stjórnendur. Það er svokallað AMP (Advanced Management Program) sem boðið verður upp á bæði hér heima og í Barcelona á Spáni. Líkt og í MBA-námi HR koma kennarar í þessu námi frá leiðandi viðskiptaháskólum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Við setjum markið hátt og gerum miklar kröfur til okkar sjálfra og nemenda okkar. Það er enginn vafi í mínum huga að framtíðin er HR," segir Svafa Grönfeldt rektor, brosandi.
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning