Reykjavíkurakademían 10 ára

mynd
Clarence E. Glad

Fréttablaðið, 05. maí. 2007

Reykjavíkur Akademían er samfélag sjálfstætt starfandi fræðimanna stofnað árið 1997.

Strax eftir stofnun Akademíunnar var hafist handa við að stilla saman strengi fræðimanna sem unnið höfðu hver í sínu horni og leita að hentugu húsnæði.

Í nóvember 1998 fluttu 14 fræðimenn í nýtt fræðasetur í JL-húsinu við Hringbraut. Akademían hefur vaxið og dafnað síðan.

Félagar eru um 400 og af þeim hafa nú um 80 vinnuaðstöðu í húsakynnum stofnunarinnar. Þessir fræðimenn vinna að eigin verkefnum og afla styrkja í krafti verðleika sinna og verkefnanna. Einnig taka þeir þátt í samstarfsverkefnum með íslenskum og erlendum fræðimönnum.

Frá því að Akademían flutti í JL-húsið hafa um 280 manns haft þar aðstöðu. Flestir eru menntaðir á sviði hug- og félagsvísinda. Í hópnum hafa einnig verið kvikmyndagerðarmenn, blaðamenn og þjóðþekktir rithöfundar.

Akademónar eru bæði langskólagengnir einstaklingar og aðrir sem eru að byrja að hasla sér völl á sínu sviði. Þessi sambúð ólíkra fræðasviða og aldurshópa hafa sett mark sitt á Akademíuna.


Þverfaglegur vettvangur

Í ljósi framannefndrar fjölbreytni er ReykjavíkurAkademíunni best lýst sem þverfaglegum vettvangi ólíkra fræða. Ólíkt hefðbundnu háskólasamfélagi þar sem hverri deild er markaður bás, hvetur uppbygging Akademíunnar til samstarfs fræðasviða. Samræða ólíkra fræðimanna felur í sér nýsköpun í aðferðum og verkefnum. Nú þegar hafa nokkur þverfagleg alþjóðleg rannsóknarverkefni akademóna náð góðum árangri.
Auk þess að sinna rannsóknum tekur Akademían ásamt félögum hennar að sér verkefni fyrir ríki og sveitarfélög, stofnanir og einstaklinga. Akademían stendur einnig reglulega fyrir málþingum og vill stuðla að gagnrýninni samfélags- og menningarumræðu. Akademían á einnig gott samstarf við ýmis fræðasetur og háskólastofnanir.

Stefna Akademíunnar og útgáfustarfsemi

ReykjavíkurAkademían starfar óháð hagsmunaaðilum á sviði stjórnmála og viðskipta og aðhyllist ekki neina pólitíska hugmyndafræði. Til þeirra sem innan vébanda hennar starfa hverju sinni gerir hún kröfur um fræðileg vinnubrögð, fyllstu vandvirkni, nákvæmni og heiðarleika.
RA tekur þátt í útgáfu þriggja fræðilegra ritraða. Í samstarfi við Omdúrman er gefin út ritröðin Atvik, handhæg og ögrandi röð smárita um hræringar í menningarlífinu. Íslensk menning er röð veigamikilla fræðirita sem Akademían stendur að ásamt Hinu íslenska bókmenntafélagi. Félagar í Akademíunni standa að útgáfu ritraðarinnar Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar í samvinnu við Háskólaútgáfuna. Árlega birtast fjölmörg fræðirit eftir akademóna, hér á landi og erlendis.

Starfsemi innan Akademíunnar

Í húsakynnum Akademíunnar er að finna bókasafn Dagsbrúnar, sem rekið er í samstarfi við Eflingu - stéttarfélag. Starfandi félög innan RA eru m.a.: Hagþenkir, Kviksaga, heimildamyndamiðstöð, Vefritin Kistan, Hugsandi og Glíman, Miðstöð einsögurannsókna, Leikminjasafn Íslands, Markmál, NN fjölmiðlaþjónusta, Penna sf., Lestrarsetur Rannveigar Lund, Hoffmannsgallerí, Náttúruverndarsamtök Íslands, Jafnréttisstofa, Rannsóknarstofnun um mannlegt atferli, Mirra, miðstöð innflytjendarannsókna og Varp, miðlunardeild RA. Þá hefur Viðskiptaháskólinn á Bifröst einnig aðstöðu í húsinu.
Nýverið hlaut rannsóknarhópur innan vébanda RA, Ísland og ímyndir norðursins, öndvegisstyrk Rannís. Á velheppnaðri alþjóðlegri ráðstefnu um efnið sagði annar aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, Sherril Grace, prófessor við University of British Columbia og forseti Hugvísindadeildar The Royal Society of Canada: „Í Kanada eru stofnanir af sama tagi (og RA) til innan raunvísinda, læknisfræði og hagfræði - þar eru þær nefndar „hugveitur" - en ekki á sviði hugvísinda. Starfsemi ykkar er einstök og því er þeim mun meiri ástæða til að dást að hugrekki ykkar, frumkvæði og árangri."
Ég vil einnig leyfa mér að vitna í ummæli forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, er Bókasafn Dagsbrúnar flutti inn í húsakynni Akademíunnar: „ReykjavíkurAkademían hefur reynst brýn viðbót við mennta- og rannsóknarstofnanir okkar Íslendinga, frjór og vakandi vettvangur fræða og menningarstarfs, samfélag sem rúmar allar kynslóðir og öll sjónarmið eins og sannri akademíu sæmir ..." Akademónum er bæði ljúft og skylt að reyna að standa undir þeim væntingum sem ofangreind ummæli gera til þeirra.
ReykjavíkurAkademían nýtur stuðnings menntamálaráðuneytisins og er jafnframt með þjónustusamning við Reykjavíkurborg. Stefnt er að útgáfu heimildamyndar og bókar um sögu Akademíunnar á hausti komanda.
ReykjavíkurAkademían heldur upp á 10 ára afmæli sitt 7. maí. Í tilefni afmælisins verður opið hús í JL-húsinu að Hringbraut 121, kl. 10-14. Allir eru velkomnir að kynna sér starfsemina innanhúss og spjalla við akademóna.
Ég vil nota tækifærið á þessum tímamótum og þakka öllum þeim fjölmörgu velunnurum Akademíunnar sem stutt hafa hana og hvatt á umliðnum árum. Sá velvilji hefur verið okkur drjúgt veganesti.

Höfundur er trúarbragðafræðingur og formaður ReykjavíkurAkademíunnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband