3.5.2007 | 08:22
Við erum í fremstu röð í menntamálum
Sigurður Kári Kristjánsson |
Fréttablaðið, 03. maí. 2007 05:00
Rangar fullyrðingar
Í aðdraganda þessara kosninga hef ég fylgst sérstaklega með málflutningi frambjóðenda Samfylkingarinnar um menntamál. Sjálfur hef ég fengið fjölmörg tækifæri til að ræða menntamál við Samfylkingarfólk á framboðsfundum, en einnig hef ég lesið skrif þeirra í blöðum og á netmiðlum.Framlag frambjóðenda Samfylkingarinnar í þeirri umræðu hefur ekki verið uppbyggilegt. Því miður virðist markmið þeirra sem skrifa og tala af mestum móð vera það að reyna að draga upp þá mynd af menntakerfinu okkar að þar sé allt í kalda koli og að mikið ófremdarástand ríki í menntamálum. Fremstir í flokki þeirra sem þannig tala eru Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og Katrín Júlíusdóttir alþingismaður, talsmenn Samfylkingarinnar í menntamálum.
Þau Katrín og Ágúst Ólafur hafa á síðustu dögum skrifað blaðagreinar þar sem slegið er fram fullyrðingum sem eiga að sanna að ríkisstjórnin eigi skilda fall-einkunn í menntamálum". Máli sínu til stuðnings vitna þau bæði í OECD-ritið Education at a Glance, en láta hjá líða að tölurnar sem þau vitna til séu gamlar eða frá árinu 2003. Þær segja því enga sögu um það sem gerst hefur á kjörtímabilinu enda veit Samfylkingin að aukið hefur verið við framlög til framhaldsskóla, háskóla og rannsókna um sem nemur á annan tug milljarða á ári frá þeim tíma.
Samfylkingin leiðrétt
Í ljósi þessa er full ástæða til þess að gera alvarlegar athugasemdir við talnameðferð Samfylkingarinnar og túlkun á stöðu menntamála á Íslandi því hún stenst ekki skoðun.Fyrsta fullyrðing Samfylkingarinnar: Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið framhaldsskólanámi er 68% en á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall 86-96% samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál. Meðaltalið í OECD ríkjum er 77% og í ESB ríkjum 78%. Ísland í 23. sæti af 30 OECD þjóðum og eru því borgarar flestra iðnríkja heims menntaðri en Íslendingar.
Önnur fullyrðing Samfylkingarinnar: 40% þeirra sem eru á íslenskum vinnumarkaði eru með grunnskólapróf eða minna. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall 12-19%.
Þetta er gífurlega villandi framsetning á staðreyndum. Í fyrri fullyrðingunni er miðað við þá sem luku framhaldsskólanámi á árabilinu 1989-1999, en það segir litla sögu um hvernig staðan er í dag.
Staðreyndirnar eru þessar: Um 97% þeirra sem ljúka grunnskóla hefja nám í framhaldsskóla.
Brautskráningarhlutfallið úr framhaldsskóla árið 2004 var 84% samkvæmt tölum OECD.
Á sama ári var brautskráningarhlutfall á háskólastigi 50% en var 38,7% árið 2000. Þetta er hæsta hlutfall innan OECD ríkja en meðaltal þeirra er 34,8%. Hvernig Samfylkingin getur haldið því fram að í ljósi þessara talna séu Íslendingar eftirbátar annarra þjóða í menntamálum er mér hulin ráðgáta.
Þriðja fullyrðing Samfylkingarinnar: Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið háskólanámi er 31% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 35-42%. Meðaltalið í OECD er 31%. Við erum hér í 17. sæti af 30 þjóðum.
Þessi fullyrðing er sett fram líkt og á Íslandi ríki ófremdarástand. Rétt er að taka fram að tölurnar miðast við þá sem lokið höfðu námi árið 2004. Þá var fjöldinn að meðaltali sá sami og í OECD ríkjunum og nokkru yfir meðaltali ESB-ríkjannna sem var 28%.
En hvað er það sem hefur gerst á þessum árum? Íslendingar hafa siglt fram úr Norðmönnum, Svíum og Dönum þegar kemur að fjölda í háskólanámi.
Í nýjasta hefti Norrænna hagtalna kemur fram að árið 2000 hafi 10,5% Íslendinga á aldrinum 20-40 ára stundað háskólanám. Árið 2004, einungis fjórum árum síðar, var þetta hlutfall komið upp í 15%. Háskólanemum hefur svo haldið áfram að fjölga verulega á þeim árum sem síðan eru liðin.
Af hverju fagnar Samfylkingin ekki því að við séum að komast í fyrsta sæti í stað þess að gefa í skyn að við séum aftarlega á merinni? Það er ekki uppbyggilegt að gera lítið úr íslenska menntakerfinu með þessum hætti. Hvorki fyrir menntakerfið, né fyrir Samfylkinguna.
Fjórða fullyrðing Samfylkingarinnar: Þegar kemur að opinberum útgjöldum í háskólana er Ísland í 21. sæti af 30 þjóðum.
Þessi staðhæfing er óskiljanleg. Í tölum OECD fyrir árið 2003, bls. 288, kemur fram að Íslendingar vörðu 1,4% af þjóðarframleiðslu til háskólastigsins sem er bæði yfir meðaltali OECD- og ESB-ríkjanna og vermir Ísland tíunda sætið af þeim 30 þjóðum sem eru mældar.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Á síðasta ári uppfærði og birti Hagstofa Íslands tölur um útgjöld hins opinbera til fræðslumála. Auk þess að birta nýjar tölur fyrir árin 2004 og 2005 þá var í fyrsta skipti stuðst við endurskoðaðan staðal við flokkun útgjalda og áður birtar tölur fyrir árin 1998 til 2003 eru endurskoðaðar með hliðsjón af honum. Þarna er því í fyrsta skipti birtar tölur samkvæmt sama staðli og önnur OECD-ríki hafa notað.
Þá kemur í ljóst að útgjöld til háskólamála á Íslandi voru 1,62% og Ísland komið í fimmta sæti OECD-ríkjanna. Árið 2005 er hlutfallið 1,59%.
Enn og aftur kýs Samfylkingin að horfa fram hjá staðreyndum, heldur á lofti gömlum og/eða villandi tölum og lætur eins og eins sú gífurlega sókn sem allir hafa orðið vitni að á sviði háskólamála hafi aldrei átt sér stað.
Við erum í fremstu röð
Það er dapurlegt að sjá hvernig Samfylkingin reynir að gera lítið úr þeim stórmerkilega árangri sem hér hefur náðst í menntamálum á síðustu árum með villandi talnabrellum og hreinum rangfærslum. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli.Þær segja okkur svart á hvítu að við erum í fremstu röð í menntamálum. Hér hefur orðið bylting og hún blasir við öllum. Það færi Samfylkingunni betur að viðurkenna að svo sé, frekar en að grípa til þeirra áróðursaðferða sem hér hefur verið lýst. Þær eru hvorki Samfylkingunni né menntakerfinu til framdráttar.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og formaður menntamálanefndar Alþingis.
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.