Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar

Greinin Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar eftir Guðrún Nordal birtist í Morgunblaðinu 4. september. Hún er endurprentuð hér með leyfi höfundar.

Forgangsröðun í þágu vísinda og nýsköpunar

Hvernig virkjum við þann kraft sem býr í okkur sjálfum, í hug- og verkviti okkar? Hvernig föngum við mannauðinn, okkar dýrmætustu auðlind? Hvernig tryggjum við að unga fólkið okkar fái notið sinna ólíku hæfileika og skili framlagi til samfélagsins? Íslenskt samfélag breytist hratt. Atvinnulífið árið 2014, og þau tækifæri til nýsköpunar sem nú blasa við ungu fólki, eru allt önnur en þau voru fyrir aðeins tíu árum. Það er því nauðsynlegt að við séum tilbúin til að horfa gagnrýnum augum á það stoðkerfi vísinda, menntunar og nýsköpunar sem byggst hefur upp á lýðveldistímanum. Hvernig þjónar það þeim sem nú vaxa úr grasi?

Stefna stjórnvalda fyrir vísindi og nýsköpun er mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn, og hún þarf að svara síbreytilegum þörfum samfélagsins. Í ráðinu sitja sextán fulltrúar hagsmunaaðila, háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs. Forsætisráðherra er formaður ráðsins, en auk þess eiga sex aðrir ráðherrar sæti í ráðinu. Stefnan endurspeglar því áherslur stjórnvalda á hverjum tíma jafnt sem hagsmunaðila. Um hana á því að vera sátt.

En ekki er nóg að marka stefnu. Á fundi Vísinda- og tækniráðs í maí síðastliðnum var í fyrsta sinn samþykkt aðgerðaáætlun um stefnuna (sjá http://www.forsaetisraduneyti.is/vt/adgerdaaaetlun/) sem brýtur að ýmsu leyti blað í málaflokknum og sýnir að stjórnvöld hafa ákveðið að forgangsraða myndarlega í þágu vísinda og nýsköpunar. Þar var samþykkt áætlun um stórauknar fjárveitingar ríkisins, 800 milljónir árið 2015 og 2 milljarða árið 2016, í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð, tvo mikilvægustu samkeppnissjóði vísinda og nýsköpunar í landinu. Sterkir samkeppnissjóðir sem byggja á erlendu jafningjamati og ströngum gæðakröfum eru besta leiðin til að tryggja sveigjanleika og að opinbert fé renni til verkefna sem standast alþjóðlega samkeppni. Í tengslum við auknar opinberar fjárveitingar voru einnig samþykktar mikilvægar aðgerðir, m.a. um skattahvata, til að örva fjárfestingu atvinnulífsins í nýsköpun og vísindum, svo að þær geti aukist um allt að 5 milljarða á sama tímabili.

Í áætluninni er að finna margvíslegar aðgerðir sem snúa að háskólum og menntakerfinu almennt, rannsóknarstofnunum og atvinnulífi. Í fámenninu vantar okkur alltaf fólk með ákveðna hæfni og því eru skilgreindar leiðir til að tryggja að íslenskur vinnumarkaður sé samkeppnishæfur og aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga. Gjaldeyrishöftin eru vitaskuld stór og alvarleg hindrun á vegi nýsköpunar, en við þurfum einnig að ryðja ýmsum öðrum hindrunum úr vegi. Í mörgum tilvikum reynist flókið að meta árangur af opinberum fjárfestingum í þennan mikilvæga málaflokk, og því hefur verið ákveðið að leggja fé í heildstætt upplýsingakerfi sem fylgist með starfsemi þeirra ótalmörgu eininga sem starfa um allt land. Öll þessi verkefni krefjast samvinnu margra aðila, ekki aðeins stjórnvalda heldur háskóla, rannsóknastofnana og nýsköpunarfyrirtækja. Þau snúast ekki einungis um fjárveitingar, heldur um öguð vinnubrögð og vilja til breytinga.

Þekkingarsköpun verður æ flóknari í tæknivæddum heimi og því þarf atvinnulífið á öflugum sérfræðingum að halda sem geta staðið sig í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni. Sú þekkingarsköpun sem verður til í vísindastarfi birtist ekki aðeins í nýsköpun í nýjum fyrirtækjum sem hafa burði til að vaxa og verða stólpar í atvinnulífinu, eins og dæmi eins og Össur, Marel, CCP og Decode sanna. Nýsköpun í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkuiðnaði sýnir að í hefðbundnum atvinnugreinum er einnig mikið svigrúm til verðmætasköpunar. En nýsköpun birtist ekki aðeins í vöru. Menningarleg og samfélagsleg nýsköpun í opinbera geiranum, s.s. í menntakerfinu og heilbrigðis- og velferðarstofnunum, skilar okkur miklum ávinningi, bætir ferla, eykur gæði og hagræðir.

Íslenskt samfélag er örsmátt, en þó höfum við ótrúlega mörg tækifæri til verðmætasköpunar. Þau þurfum við að grípa saman og í samvinnu við öfluga alþjóðlega samstarfsaðila. Þau snúa ekki aðeins að efnhagslegum ábata heldur hvetja okkur til að leggja okkar að mörkum við lausn þeirra áskorana sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ég fagna því að stjórnvöld hafi með samþykkt aðgerðaáætlunar sýnt ríkan skilning á því grundvallarhlutverki sem menntun, vísindi og nýsköpun munu gegna á 21. öldinni – nú er það okkar allra að fylgja henni fast eftir.

Guðrún Nordal

Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs

------------------

Aðgerðaráætlun Vísinda og tækniráðs 2014-2016.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband