Stærðfræðingur Trúlofast

Grein eftir Þorgerði Einarsdóttur, birtist í fréttablaðinu 28 Febrúar.

Almenn samstaða virðist um það hérlendis að mikilvægt sé að auka þekkingu í hefðbundnum raunvísindagreinum og glæða áhuga barna á námi og starfi í raunvísindum og tæknigreinum. Þessi áhersla stafar ekki af sérstöku dekri við raunvísindi og hún þarf ekki að fela í sér vanmat á hug- og félagsvísindum. Hún byggist á því að í flóknum samfélögum nútímans séu hugvit, upplýsingar og tækniþekking burðarásar framþróunar, og að vísindi og nýsköpun vegi þungt í samkeppnisstöðu þjóða. Hugtökum eins og nýja hagkerfið, þekkingarsamfélag og upplýsingasamfélag er hent á lofti, og margir telja breytingarnar svo víðtækar að þeim megi líkja við byltingu.


Viðfangsefnið er margslungið. Stærðfræðikunnátta grunnskólanemenda virðist vera slakari en kunnátta í öðrum greinum, eins og fram hefur komið niðurstöðum samræmdra prófa um árabil og nýlegri PISA-könnun - þótt Ísland komi ekki illa út í alþjóðlegum samanburði. Það er þekkt að vandamál stærðfræðikennarar í grunnskólum hafa almennt litla menntun í stærðfræði og litla kennslufræði í faginu. Þrátt fyrir að stærðfræði sé ein stærsta kennslugrein grunnskólans útskrifast fá kennaraefni af stærðfræðikjörsviði KHÍ.

Vandamálið hefur líka kynjavídd. Hérlendis standa stelpur sig betur en strákar í stærðfræði í grunnskóla eins og PISA-könnunin staðfesti. Helst munar þar um lakari stöðu drengja á landsbyggðinni og sýnir það að ávallt eru fleiri en ein áhrifabreyta að verki. En þrátt fyrir betri árangur virðast stelpur velja sig frá stærðfræði þegar skyldunámskeiðum lýkur. Anna Kristjánsdóttir prófessor hefur bent á að stelpur sem ná afburðaárangri í stærðfræði á yngri árum taka sjaldnar en strákar þátt í stærðfræðikeppnum og heltast úr lestinni þegar á líður. Að mati vísindasagnfræðingsins Londu Schiebinger er brottfallið svo mikið að það þarf 2000 grunnskólastelpur til þess að búa til einn kvendoktor í raunvísindum, en sambærileg tala hjá strákum er 400. Í þessu samhengi eru síðustu breytingar á námskrá framhaldsskólans mikið áhyggjuefni en þar var skylduáföngum í stærðfræði fækkað verulega á félags- og málabrautum þar sem stelpurnar eru fjölmennastar.

Ástæðurnar fyrir raungreinafælni stelpna og stráka eru margar og flóknar. Margar þeirra voru ræddar af starfshópi menntamálaráðherra um aðgerðir til að fjölga nemendum í raunvísindum, sem lauk störfum í fyrra. Ýmsar ágætar tillögur komu þar fram, t.d. um aukna menntun og þjálfun, vísindaþekkingu og vísindalæsi, fjölbreytni í náms- og kennsluaðferðum og um Tilraunahús. En það vekur athygli að lítið er gert úr þætti sem nefndur er „ímynd vísindanna/vísindamanna". Vísindin eru einmitt eitt þeirra sviða sem hvíla í afar sterkum staðalmyndum. Erlendar rannsóknir sýna að börn hafa miklar ranghugmyndir um störf vísindamanna og þau lýsa dæmigerðum vísindamanni nánast alltaf eins: Hann er fullorðinn hvítur karl í tilraunasloppi, utan við sig, nördalegur og úr tengslum við veruleikann. Hann hugsar örugglega ekki mikið um börnin sín eða fjölskylduna, og vísast hefur hann aldrei þvegið sokkana sína sjálfur eða skipt um á rúminu sínu.

Staðalmyndir eru gríðarlega áhrifamiklar sálfræðilegar hindranir. Þær búa til hugmyndir sem ekki eru til staðar og eiga ríkan þátt í félagsmótun barna. Könnun sem Kristján Ketill Stefánsson gerði í kennslufræði raungreina nýverið sýnir að þessar staðalmyndir lifa góðu lífi hérlendis. Þessa úrelta staðalmynd byggist á fullkomlega óraunhæfum mannskilningi. Það er t.d. allsendis óvíst að vísindamaðurinn hér að framan sé frjór í hugsun því skapandi einstaklingar þurfa tíma til að geta notið samskipta, lista, tómstunda eða félagsstarfa. Vísindastörf geta ekki verið sólarhringsvinna, það ógnar heilsu manna og velferð, fyrir utan að reynslan sýnir að góðar hugmyndir kvikna þegar fólk er í afslöppun.

Samt er þessi staðalmynd endursköpuð og ítrekuð í sífellu, jafnvel af þeim sem síst skyldi. Í myndasamkeppni Rannís og Morgunblaðsins „Vísindamaðurinn minn" meðal 9-11 ára barna í tilefni Vísindavöku í október 2006 voru verðlaunamyndirnar allar í þessum dúr, en þær má sjá á heimasíðu Háskóla Íslands. Eflaust hefur myndasamkeppnin átt að auka áhuga barna á vísindum, en spurningin er hvort hún hefur kannski gert hið gagnstæða. Það þarf ekki mikinn hugsuð - eða vísindamann - til að sjá hvernig skera mætti á endurtekninguna. Það hefði verið hægt að hafa keppnina um „konur og karlar í vísindum" eða brjóta niður þetta hátíðlega orð „vísindamaður" og vísa í hversdagslega hluti, t.d. „ eðlisfræðingur skiptir á bleyju" eða „stærðfræðingur trúlofast". Þannig mætti hugsanlega gera „vísindamanninn" að þeirri heilu og heilsteyptu manneskju sem við viljum öll vera - og er vonandi meira aðlaðandi í hugum ungra krakka.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En skilgreinir maður ekki starfstéttir útfrá því sem að þær gera? T.d. útbúa kokkar mat og dansarar dansa. Ef að maður biður barn um að teikna mynd af dansara, teiknar barnið ekki dansandi manneskju? Ekki, manneskju að trúlofast eða skipta um bleyjur, ehh.....

Pétur Henry (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 12:28

2 identicon

Jú, víst skilgreinir maður starfsstéttir út frá því.  En það sem hér um ræðir er að sýna að fólkið í þessum starfsstéttum er að flestu leyti ósköp venjulegt fólk utan vinnu sinnar, ekki félagslega heftir furðufuglar, sem virðist vera algeng ímynd.  

Ég held reyndar að þetta sé vandamál sem vert væri að taka á, og það kæmi mér ekki á óvart ef það að breyta þessari staðalímynd gæti haft jákvæð áhrif á fjölda ungmenna sem fengju áhuga á vísindastarfi.  Ekki síst grunar mig að fæð kvenna í raunvísinda- og tæknigreinum geti verið afleiðing af þessu að hluta.  En, um það hef ég auðvitað engin gögn, aðeins ágiskanir.

Einar Steingrímsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband