Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks

Í samfélögum nútímans gegna vísindafólk mörgum hlutverkum og skyldum. Öflun og miðlun grunþekkingar um efnisheiminn, veröldina og mannkynið eru að mínu mati þau veigamestu. Að auki er mikilvægt að vísindaþekking sé nýtt á hagnýtan hátt til að auka lífsgæði einstaklinga í samfélaginu og framleiðni þess. Vísindamenn gegna skyldum í þessu samhengi einnig, og er mikilvægt að þekking þeirra nýtist stjórnendum og kjósendum til að taka bestu (eða skástu) ákvarðunina í hverju máli.

Tíðrætt er um birtingar ritrýndra greina sem besta mælikvarða á framleiðni vísindafólks, en í raun hlýtur framlag þeirra að vera fjölþættara. Sumir einstaklingar eru afburða leiðbeinendur, stjórnendur, fræðifólk eða rannsakendur. Hæfileikar vísindamanna eru því fjölbreytilegir og skyldur þeirra einnig. Í smærri samfélögum eins og á Íslandi er samt mikilvægt að einstaklingar geti látið til sín taka á fleiri en einu sviði, t.d. rannsóknir á fiskistofnum og veiðistjórnun eða fræðslu um sníkjudýrum í sandkössum. Í fljótu bragði gæti þessi krafa um fjölhæfni fræðimanna virkað sem fjötur um fót, en annað sjónarhorn er að fjölbreytt viðfangsefni í rannsóknum, fræðslu og jafnvel samfélagslegri umræðu um vísindi sé til gagns. Víðari skilningur fólks á aðferðafræði vísinda, forsendum tilrauna og túlkun þeirra getur einungis verið rannsóknum til framdráttar.

Í þessu ljósi er hægt að skilgreina nokkur veigamestu baráttumál vísindafólks.

1) Góð grunn kennsla á lægri menntastigum. Þekking á grundvallar lögmálum veraldarinnar og aðferðafræði vísinda er mikilvæg. Einnig er mikilvægt að rækta gagnrýna hugsun og lestur, rökvísi auk almennrar framsetningar. Geta til að setja fram hugsanir og niðurstöður á blað, slæðu eða í framsögu nýtist bæði fræðifólki framtíðarinnar og samfélaginu í heild.

2) Stuðningur við kennslu á Háskólastigi. Mikilvægt er að búa vel að kennslu, hvað varðar aðstöðu, endurmenntun, laun kennara og leiðbeinanda. Einnig er mikilvægt að styðja við nemendur, sérstaklega að hvetja þá til framfara og efla metnað þeirra fyrir menntun sinni og velferð samfélagsins.

3) Stuðningur við rannsóknir á stofnunum og í Háskólum. Allar betri rannsóknarstofnanir erlendis hafa sterka fjárhagslega stöðu sem notuð er til að hlúa að rannsóknum og opna nýjar brautir. Hér um ræðir fjármagn fyrir aðstöðu, tækjakost, aðstoðarfólk, og einnig umtalsvert rannsóknar fé. Til dæmis eru ný stöðugildi búin til í vísindagreinum þar sem mikill vöxtur er í og sem viðkomandi stofnun hefur lagt áherslu á. Einnig er nýráðið vísindafólk stutt með sjóð til tækjakaupa og oft launum fyrir aðstoðarfólk um nokkura ára skeið.

4) Auknir fjármunir í samkeppnissjóði. Flestar grunnrannsóknir krefjast fjármuna, sem afla verður með umsóknum í sjóði, innlenda sem erlenda. Hérlendis hefur of litið hlutfall rannsóknarpeninga og þjóðartekna verið varið í slíka sjóði, og löngu tímabært að bæta úr. Tvennskonar sjóðir eru mikilvægastir. Sjóðir sem fjármagna ákveðin verkefni í grunnvísindum og sem tengjast hagnýtingu þeirra. Slíkir styrkir eru veittir vísindafólki sem hefur byggt upp sjálfstæð rannsóknarverkefni og einnig er hægt að veita fjármunum til samstarfsverkefna. Annarsvegar eru svokallaðir einstaklings styrkir, sem væru veittir til nemenda í framhaldsnámi eða einstaklinga sem lokið hafa framhaldsprófi (e. “post-doc”). Slíkir styrkir hvetja einstaklinga til að standa sig og vinna að framsæknum verkefnum.

Þessir fjórir þættir vega að mínu mati þyngst fyrir Íslenskt vísindafólk. Vissulega eru nokkur atriði umdeild, eins og hvernig er skynsamlegast að deila fjármagni til þessara fjögura þátta. Nýr samningur menntamálaráðherra og Háskóla Íslands (sem er háður samþykki alþingis) er eitt dæmi um slíkt, þar sem rök hafa verið færð fyrir því að beina fjármunum í samkeppnissjóði frekar en eina stofnun. En reynslan erlendis frá (liður 3) sýnir að uppbygging rannsóknarumhverfis gefur einnig góðan árangur, sérstaklega þar sem stofnanir ná að verðlauna vísindafólk og deildir sem stunda framsæknar rannsóknir og fá styrki úr samkeppnissjóðum. Vel væri athugandi að láta hluta af upphæð styrkja renna í sérstaka sjóði, sem notaðir væru til að styðja við rannsóknir í viðkomandi stofnun (innan háskóla gæti einingin líka verið deild eða skor). Óháð útfærslunni held ég að slík samþætting stuðnings frá rannsóknarstofnun og samkeppnissjóðum sé nauðsynleg til að rannsóknir á Íslandi nái fullum blóma. Spurningin er einungis um útfærslu, því mannauðurinn er nægur.

Með kveðju Arnar Pálsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband