4.11.2010 | 13:59
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda
Rannsóknatengd nýsköpun er sú gerð nýsköpunar sem leiðir til mests virðisauka. Oftast á sú nýsköpun uppruna í grunnrannsóknum á sviði verkfræði og raun- og heilbrigðisvísinda. Staða þessara vísinda á Íslandi hefur hins vegar versnað að mun í kjölfar kreppunnar. Vísindarannsóknir á sviði raun- og heilbrigðisvísinda eru öflugustu rannsóknir sem stundaðar eru á Íslandi. Þetta hefur komið fram í öllum úttektum sem gerðar hafa verið á stöðu vísindarannsókna á Íslandi, nú síðast í skýrslu Rannís um ritrýndar birtingar og áhrif þeirra. Þrátt fyrir þetta er staða þessara fræðasviða veik í alþjóðlegum samanburði enda samkeppnissjóðir á Íslandi veikir. Helsti samkeppnissjóðurinn sem styrkir vísindarannsóknir er Rannsóknasjóður. Árið 2009 hafði hann samtals 314 milljónir til úthlutunar í ný verkefni. Meðalupphæð styrkja var 6.1 milljón. Þessi upphæð dugar vart fyrir launum og rekstrarkostnaði eins rannsóknarnema í eitt ár. Rannsóknastofa með einum nemenda er hins vegar örrannsóknastofa og langt frá sambærilegum rannsóknastofum í nágrannalöndunum þar sem stofur með 5-10 nemendum eru algengar. Sá árangur sem hefur náðst í vísindarannsóknum á sviði raun- og heilbrigðisvísinda er einkum því að þakka að erlendir samstarfsaðilar einstakra vísindamanna greiða oft brúsann. Það er hins vegar ekki hægt að reiða sig á slíkt til langframa og raunar má leiða líkur að því að niðurskurður á innlendu rannsóknarfé veiki samkeppnisstöðu íslenskra vísindamanna á erlendum vettvangi. Árangurshlutfall íslenskra vísindamanna í erlendum samkeppnissjóðum, s.s. 7. Rammaáætlun, hefur verið gott en minni árangur heima fyrir leiðir einungis til veikari samkeppnisstöðu erlendis. Þetta er vert að hafa í huga, ekki síst í ljósi þess að eitt af þremur meginstefjum í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010-2012 er einmitt að auka alþjóðlega samvinnu.
Íslenska meðalstyrkinn má bera saman við sambærilega styrki á vesturlöndum. Einfaldast er að bera hann saman við meðalstyrk í Bandaríkjunum þar sem styrkjakerfið er samræmt og gagnsætt en þar er það National Institutes of Health (NIH) sem einkum styrkir rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda. Flestir ef ekki allir bandarískir vísindamenn á sviði heilbrigðis- og lífvísinda reiða sig á styrki frá NIH en þeir eru mikilvægasta fjármögnunin. Meðal-upphæð verkefnastyrkja frá NIH var 416 þúsund dollarar/ár (50 milljónir ísl. kr.) árið 2009. Þetta er 9 sinnum hærri upphæð en meðal-verkefnisstyrkur frá Rannsóknasjóði. Frá Evrópu má nefna nærtækt dæmi, en samstarfsaðili annars okkar hlaut nýverið styrk að upphæð 20 milljónir sænskra króna (330 milljónir ísl. kr.) til fimm ára frá Strategiska Fonderna. Augljóst er að erfitt er að keppa við vísindamenn í nágrannalöndunum með hið íslenska styrkjakerfi að vopni.
Áhugaleysi stjórnvalda á rannsóknum á sviði verkfræði, raun- og heilbrigðisvísinda kemur fram á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi má nefna áhugaleysi gagnvart Rannsóknasjóði og takmarkaðan áhuga á að breyta pólitískum vísindasjóðum (t.d. AVS sjóðnum) í alvöru vísindasjóð. Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir endurteknar tilraunir hefur enn ekki tekist að fá niðurfelldan virðisaukaskatt af rannsóknavörum. Í þriðja lagi hefur mennta- og menningarmálaráðherra nýlega skipað Gæðaráð háskóla sem ætlað er að tryggja gæði háskólastarfsemi á Íslandi og bæta kennslu og rannsóknir á markvissan hátt. Þetta skref er fagnaðarefni. Það er hinsvegar athyglisvert að enginn þeirra erlendu sérfræðinga sem skipaðir hafa verið í ráðið hafa menntun eða reynslu á sviði tilraunavísinda (verkfræði, raun- eða heilbrigðisvísinda). Það virðist því ætlun yfirvalda að láta meta þessi vísindi, sem allir mælikvarðar segja að séu þau sterkustu á Íslandi, af einstaklingum sem ekki þekkja til þessara vísinda. Áhugaleysi stjórnvalda gagnvart málaflokknum er áhyggjuefni. Það er mikilvægt fyrir framtíð Íslands að efla rannsóknatengda nýsköpun. Fáir hefðu spáð því fyrir 20 árum að áhugaverðustu fyrirtæki Íslands árið 2010 störfuðu á sviði stoðtækja, erfðafræði, tölvuleikja eða lyfjaframleiðslu. Ef sambærileg óvænt nýsköpun á að geta orðið til í framtíðinni, er mikilvægt að stórefla samkeppnissjóði, sérstaklega á sviði raun- og heilbrigðisvísinda.
Í þessum greinarflokki höfum við lagt áherslu á samfélagslegt hlutverk vísinda og nýsköpunar. Vísindi geta skapað eina af stoðum nýs samfélags. Til þess að þetta verði að veruleika verðum við að endurskoða fjármögnun og gæðamat vísindarannsókna á Íslandi. Við leggjum til að á aldarafmæli Háskóla Íslands hefjist slík endurskoðun. Í þeim tilgangi mætti skipa ráðgjafarráð alþjóðlegra vísindamanna og annarra sérfræðinga á sviði nýsköpunar. Ráðgjöf slíks hóps gæti hjálpað okkur að brjótast úr viðjum stofnanafjárveitinga og um leið leyst úr læðingi nýjan kraft innan háskólasamfélagsins. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir að raunveruleg verðmætasköpun byggir á þekkingu og að slík fjárfesting er langtímafjárfesting sem leggur grunn að öflugu, frjóu og upplýstu samfélagi sem skapar eftirsóknarvert umhverfi fyrir komandi kynslóðir.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Meginflokkur: Arfleifð Darwins | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.