4.11.2010 | 13:56
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (3) Gæði rannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(3) Gæði rannsókna
Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fer í gegnum samkeppnissjóðina. Í hinum vestræna heimi er þetta hlutfall víðast mun hærra og er um 30-40% á hinum norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum koma um 85% af rannsóknafé háskóla úr samkeppnissjóðum. Það er því ljóst að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.
Samkeppnissjóðirnir tryggja gæðaeftirlit með rannsóknunum. Rannsóknaverkefni og virkni vísindamanna sem sækja um styrki eru metin reglulega og þegar dregur úr virkni eða hugmyndaauðgi, fá viðkomandi vísindamenn ekki styrki lengur. Hér á landi nær þetta eftirlit aðeins til þess hluta af framlagi ríksins sem fer gegnum samkeppnissjóði. Sumir íslensku samkeppnissjóðanna, t.d. Rannsóknasjóður, notast nú við erlenda matsaðila þannig að flestar, ef ekki allar, umsóknir fara í mat erlendra, óháðra vísindamanna. Þannig fæst óháð mat á gæðum íslenskra vísindaverkefna og vísindamanna. Sjóðurinn og þjóðin ættu því að vera nokkuð viss um að þessu fé er vel varið. Aðrir sjóðir notast við innlenda matsaðila og ættu, í ljósi jákvæðrar reynslu Rannís, að breyta þeirri stefnu sinni og taka upp erlent mat. Sumir hinna sjóðanna eru reyndar fremur pólitískir sjóðir og eiga lítið skylt við alvöru vísindasjóði. Sem dæmi um slíkan sjóð er AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) en nýskipaður stjórnarformaður hans er þingmaður og náinn samstarfsmaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Mikill munur er einnig á árangurshlutfalli íslenskra vísindasjóða. Sem dæmi má nefna að í Rannsóknasjóði er þetta hlutfall að nálgast 10% en er 50% í AVS. Þetta þýðir að það er mun meiri samkeppni um fé úr Rannsóknasjóði en AVS.
Hvað með gæðaeftirlit með hinum 85-90 prósentunum af framlagi ríkisins til rannsókna? Staðreyndin er sú að með þeim er lítið sem ekkert ytra eftirlit og ekkert er spurt um gæði eða árangur. Þessu þarf að breyta. Víðast erlendis er strangt gæðaeftirlit með öllu fé sem veitt er til rannsókna til að hámarka nýtingu almannafjár. Við erum ekki að tala um hefðbundið bókhaldseftirlit heldur eftirlit með gæðum rannsóknanna. Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er þetta oftast gert á þann hátt að á 5 ára fresti þarf hver rannsóknastofa að útskýra fyrir sérstakri úttektarnefnd vísindamanna hvað stofan hefur gert á tímabilinu og hvað hún hyggst gera næstu 5 árin. Rannsóknastofan undirbýr vandlega skýrslu sem nefndin fær til yfirlestrar, nefndin mætir síðan á rannsóknastofuna þar sem verkefnin eru útskýrð með fyrirlestrum, farið er yfir árangurinn og hann metinn og skoðað hvort framtíðaráætlanirnar séu raunhæfar. Að lokum kemst úttektarnefndin að niðurstöðu sem settar eru fram í viðamikilli skýrslu. Í úttektarnefndinni eru yfirleitt leiðandi vísindamenn á viðkomandi sviði sem ekki hafa starfað með viðkomandi rannsóknastofu en þannig er tryggt að úttektin sé fagleg og óháð. Við höfum kynnst svona úttektum í störfum okkar erlendis. Þessi aðferð virkar afar vel. Hún er fagleg og leiðir til gagnrýninnar umræðu. Rannsóknastofum er hrósað fyrir það sem vel er gert en þær gagnrýndar fyrir það sem miður hefur farið. Niðurstöður slíkra úttekta eru síðan notaðar við ákvarðanatöku og stefnumótun.
Hér á landi er ekkert slíkt gæðaeftirlit með þeim fjölda stofnana sem stunda vísindarannsóknir. Hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, vita því ekki hvort þessu fé er vel varið. Vísinda- og tækniráð hefur þó nýlega tekið málið til umfjöllunar og segir í núverandi stefnu ráðsins Sjálfstæð greiningarvinna á afrakstri rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði styrkt hér á landi og unnin af óháðum aðilum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýlega sett á fót Gæðaráð háskóla sem ætlað er að skoða gæðamál innan háskóla, þ.á.m. tengsl kennslu og rannsókna. Ráðið er skipað sex erlendum aðilum og ætti því að geta verið faglegt og óháð. Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun- heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags, -hug- og menntavísindum hins vegar. Gæðaráðið er því ólíklegt til að geta lagt mat á gæði rannsókna í raun- heilbrigðis- og lífvísindum. Þessu þarf að breyta til að slíkt úttekt verði trúverðug.
Við leggjum því til að i) hafið verði gæðaeftirlit með öllu rannsóknafé á Íslandi; ii) við þetta eftirlit verði notast við þær aðferðir sem gefist hafa best annars staðar (sbr hér að ofan); iii) niðurstöður slíkra úttekta verði notaðar við ákvarðanatökur; iv) í gæðanefndina verði skipaðir aðilar úr raun- heilbrigðis- og lífvísindageirunum.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Vísindi og fræði, Arfleifð Darwins | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.