4.11.2010 | 13:54
Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna
Eiríkur Steingrímsson & Magnús Karl Magnússon.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Háskólarannsóknir á tímum kreppu
(2) Fjármögnun vísindarannsókna
Það er almennt viðurkennt að öflug rannsóknastarfsemi leiðir til verðmætrar nýsköpunar. Í úttekt sinni á tengslum grunnrannsókna og atvinnulífsins komst Committee for Economic Development, bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun, að þeirri niðurstöðu að 25% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna. Í efnahagsþrengingum sínum fyrir 2 áratugum ákváðu Finnar að stórauka áherslu sína á grunnrannsóknir og völdu þá leið að nota samkeppnissjóði til að ná markmiðum sínum um aukna nýsköpun. Þeir útbjuggu því samkeppnissjóði um alla rannsóknatengda starfsemi háskóla og stofnana og stórjuku framlög til sjóðanna. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa en Finnar eru nú meðal fremstu þjóða Evrópu á þessu sviði skv. úttekt European Innovation Scoreboard.
Í efnahagsþrengingum á Íslandi hefur verið rætt um mikilvægi þess að efla nýsköpunar og hefur Vísinda- og tækniráðs sett sér skýra og framsækna stefnu. Henni hefur þó ekki verið fylgt eftir svo neinu nemi. Nýlega voru þó samþykkt lög um skattaívilnun vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf. En framlög til þeirra sjóða sem helst styrkja rannsóknir og nýsköpun, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, hafa hins vegar staðið í stað í krónum talið sem þýðir að þau hafa í raun minnkað verulega að verðgildi. Þar sem íslenskir vísindamenn hafa alltaf staðið illa að vígi hvað fjármögnun varðar (enda upphæðir styrkja mun lægri hér en í flestum löndum Evrópu og Bandaríkjanna) er ljóst að staða þeirra hefur versnað að mun. Eitt lítið mál sem sýnir tómlæti stjórnvalda gagnvart rannsóknatengdri starfsemi er að hér er innheimtur virðisaukaskattur af allri rannsóknatengdri starfsemi háskóla og stofnana. Undanfarinn áratug hafa verið gerðar ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að fá skattinn felldan niður. Slíkur skattur er hvergi lagður á rannsóknastarfsemi í hinum vestræna heimi. Annað og alvarlegra mál er að samkeppnissjóðirnir eru einungis um 14% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi og hafa verið um langt skeið. Á Norðurlöndunum eru samkeppnissjóðirnir hins vegar 30-40%. Samkeppnissjóðirnir eru besta leiðin til að styrkja vísindastarfsemi enda veita þeir fjármagni milliliðalaust til vísindaverkefna og tryggja um leið aðhald með gæðum verkefna. Slíkt eftirlit er ekki nema að litlu leyti við lýði með þeim fjármunum sem veittir eru beint til stofnana. Ef nýta á betur fé til vísindarannsókna er mikilvægt að gera það á þann hátt að það skili auknum gæðum. Ef samkeppnissjóðirnir eru efldir aukast gæði rannsóknanna þannig að meira fæst fyrir féð. Við fjárlagagerð eru fáir talsmenn samkeppnissjóða en þeim mun fleiri og aðgangsharðari talsmenn þeirra stofnana sem þiggja sitt rannsóknafé beint af fjárlögum. Því er mikil hætta á því að samkeppnissjóðirnir verði útundan og verði jafnvel skornir niður við næstu fjárlagagerð. Þau vísindaverkefni sem hafa farið í jafningjamat og þar verið metin best, eru nú í mestri hættu á að vera ekki styrkt áfram, á meðan stofnanir sem stunda rannsóknir án gæðaeftirlits fá áfram fjármagn eftirlitslaust.
Annað alvarlegt vandamál í fjármögnun rannsókna á Íslandi er krafan um mótframlag. Þetta felst í því að stofnunin sem vísindamaðurinn starfar við þarf að leggja til ákveðið mótframlag á móti styrkjum sem koma inn. Afkastamiklir vísindamenn verða því byrði á sinni stofnun. Sem dæmi má nefna að nýlega var prófessor sagt upp við Háskólann í Reykjavík. Ástæðan sem gefin var upp var sparnaður. Prófessorinn var með öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði sem kallaði á mótframlög frá HR sem sennilega hafa verið skólanum of dýr og því betra að segja honum upp en einhverjum starfsmanni sem ekki var með slíkan styrk. Í flestum nágrannalöndum tíðkast hið andstæða, þ.e. styrkveitandinn veitir meðlag til stofnunarinnar sem tryggir að vísindarannsóknin getur farið fram. Þannig verður það eftirsóknarvert fyrir stofnanirnar að hafa afkastamikla vísindamenn á sínum snærum því umsvif stofnunarinnar aukast í beinu sambandi við styrkjaöflun.
Að okkar mati er því mikilvægt að: i) efla samkeppnissjóðina og tryggja að meira rannsóknafé verði veitt í gegnum þá; ii) hefja gæðaeftirlit með öllum rannsóknastofnunum og háskólum á Íslandi til að tryggja að hið opinbera greiði einungis fyrir bestu rannsóknir hverju sinni; iii) greiða meðlag til stofnunar með hverjum styrk til að tryggja að rannsóknin geti farið fram; iv) leggja niður innheimtu VSK af rannsóknastarfsemi.
Birtist í Fréttablaðinu haustið 2010.
Sett inn fyrir hönd höfunda.
Meginflokkur: Arfleifð Darwins | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Tenglar
Stjórnmálamenn með vit á menntamálum og vísindum
Áhugafólk um menntamál og vísindi
Greinar og skýrslur
Fyrirtæki og félagasamtök
Rannsóknarstofnanir
Vísindi, fræði og tækni
Stofnanir og Skólar
Aðstandendur
- Heiða María Sigurðardóttir
- Indriði H. Indriðason
- Arnar Pálsson
- Inga Dóra Sigfúsdóttir
- Anna Ingólfsdóttir
- Guðrún Valdimarsdóttir
- Þórarinn Guðjónsson
- Luca Aceto
- Einar Steingrímsson
- Eiríkur Steingrímsson
- Magnús Karl Magnússon
- Pétur Henry Petersen
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.