Setningarræða forsætisráðherra á ráðstefnu um samkeppni í vísindum í Háskólanum í Reykjavík 29. mars 2007

Í síðustu viku var haldið málþing á vegum þess hóps sem að þessari bloggsíðu stendur, um fjármögnun vísinda. 

Hér má sjá setningarræðu forsætisráðherra, Geir Haarde

 

Góðir ráðstefnugestir,

„Samkeppni í vísindum – forsenda framþróunar?“, er titill þessarar ráðstefnu í spurnarformi. Þetta er tímabær spurning sem ætti að vera reglubundið á vörum hvers vísindamanns. En spurningin á ekki einungis erindi til vísindamanna heldur þurfa stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu öllu að móta afstöðu til hennar.

Flestir eru sammála því að samkeppni er forsenda þess að góð vísindi séu stunduð. Góð vísindi eru svo ein mikilvæg forsenda framþróunar. Þetta er stysta svar mitt við spurningunni. Í þessu ljósi hafa stjórnvöld á því kjörtímabili sem er að ljúka fylgt þeirri stefnu að efla samkeppnissjóðina sem styðja rannsóknir og tækniþróun og hefur ráðstöfunarfé þeirra verið tvöfaldað. Það er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um hvað samkeppnin í raun stendur. Einnig verðum við að velta fyrir okkur hvort samkeppni eigi að vera um allt fé sem varið er til rannsókna af hálfu þjóðarinnar og stjórnvöld ráðstafa.

Samkeppni í vísindum stendur annarsvegar um frelsið til að velja sér viðfangsefni til rannsókna og hins vegar um gæði þeirra aðferða sem beitt er, hæfni vísindamannsins og líkindi til að rannsóknir skili árangri er réttlæti þá fjármuni sem til þeirra er varið. Sem stjórnmálamaður - en um leið formaður Vísinda- og tækniráðs í því unga kerfi sem markar stefnu í vísindum og tækni - geri ég mér grein fyrir að málið kann að horfa nokkuð mismunandi við vísindamanninum annars vegar og stjórnmálamanninum og forsvarsmanni fyrirtækis hins vegar. Þessi sjónarmið mætast reyndar í störfum Vísinda- og tækniráðs.

Í heimi vísindanna er það algjört grundvallaratriði að vísindamenn hafi fullt og óheft frelsi til þess að velja sér viðfangsefni og kenningar til þess að fjalla um og að eingöngu jafningjar í heimi vísinda eða tækni meti hvaða kröfur þarf að uppfylla til þess að tilgáta teljist sönnuð. Þessu frelsi má ekki undir neinum kringumstæðum hnika.

Hins vegar er stjórnmálamanninum mikilvægt að vita að því fé sem varið er til rannsókna sé vel varið og skili þjóðfélaginu ávinningi sem réttlæti þá fjármuni sem til rannsókna er varið. Í ýmsum efnum blasa viðfangsefni rannsókna beint við, bæði frá sjónarhóli þjóðfélagsins eða fyrirtækis sem er að leggja grunn að framtíð sinni í harðri samkeppni. Við köllum það gjarnan hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf. Ég nefni sem dæmi að við gætum ekki stundað sjálfbærar fiskveiðar, unnið samkeppnishæfa vöru úr aflanum né hefðum við virkjað fallvötn og jarðhita ef ekki hefði notið rannsókna með vel skilgreind hagnýt markmið. Sama má segja um rannsóknir á leiðum til að fást við búfjársjúkdóma eða gera íslensk mannvirki úr innlendum hráefnum. Auðvelt var á síðustu öld að réttlæta fjármuni til slíkra verkefna og setja á laggirnar stofnanir til að stunda rannsóknar á þessum sviðum. Sem betur fer áttum við líka ágæta vísindamenn sem unnu ötullega að þessum verkefnum, leystu mörg þeirra og sýndu fram á mátt vísindanna og stóðu sig margir vel á mælikvarða alþjóðlegra vísinda eins og tilvitnanir í ritverk þeirra sýna.

Það fer ekki framhjá ykkur sem hér eruð að við höfum verið að leggja verulega aukið fé til háskólanna að undanförnu. Við gerum okkur líka grein fyrir því að eflingu háskólamenntunar þarf að fylgja aukið fé til rannsókna sem ekki verður allt bundið beinni samkeppni um verkefni heldur þurfa innviðir að styrkjast með beinum grunnfjárveitingum. Við höfum smám saman verið að auka grunnfjárveitingar til rannsókna í nýju háskólunum eftir því sem þeim hefur vaxið fiskur um hrygg. Í þessum anda var nýlega einnig tekin ákvörðun um að efla Háskóla Íslands sem flaggskip í þessum efnum og gera honum kleift að hasla sér völl sem alþjóðlega sýnileg stofnun á sviði vísinda og fræða.

Þótt framlög til háskólanna hafi þannig verið aukin stórum skrefum þá hef ég jafnframt áhuga á að skapa svigrúm til að auka enn frekar framlög til opinberra samkeppnissjóða á komandi árum. Auk þess höfum við skuldbundið okkur til að leggja fram aukin framlög til 7. rammaáætlunar Evrópusambandsins sem jafnast á við það sem nú fer í Rannsóknasjóð. Ég tel að samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar séu mikilvæg forsenda nýrra strauma í rannsóknum og nýrra rannsóknahópa í þjóðfélaginu. Frumkvæði, færni og aðstaða einstaklinga til rannsókna- og þróunarstarfa í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum eru forsendur árangurs í vísindum og tækni. Samkeppni þeirra um opinbert rannsóknafé er mikilvægur drifkraftur í vandaðri meðferð í rannsóknastarfsemi.

Samkeppnisstaða og velsæld þjóða mun ráðast fyrst og fremst af getu þeirra til að líta fram á veg, koma auga á tækifæri og nýta þekkingu með skipulegum hætti. Í því sambandi tel ég miklu skipta að okkur takist að efla og auka samstarf háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja um hverskyns rannsóknir og nýsköpun. Rannsóknir sem unnar eru í samstarfi geta skapað samvirkni og samlegðaráhrif og skila þannig meiri árangri fyrir sömu fjármuni. Við höfum hér á landi dæmi um kröftug og framsækin hátæknifyrirtæki sem hafa sprottið úr jarðvegi rannsókna og nýsköpunar og náð lofsverðum árangri í sókn á erlenda markaði þegar heimamarkaður hefur ekki nægt til að viðhalda áframhaldandi vexti og uppbyggingu.

Ég er þess fullviss að stóriðjutækifæri okkar Íslendinga munu í framtíðinni felast í útflutningi á hátækniþekkingu í þeim greinum þar sem við höfum forskot á aðrar þjóðir. Þannig er uppsöfnuð þekking og kunnátta á endurnýjanlegri orkuvinnslu óvíða meiri í heiminum en hjá íslenskum orkufyrirtækjum. Þessi fyrirtæki horfa nú í æ ríkari mæli til annarra landa og huga að útflutningi á þekkingu á þessu sviði þegar að heimamarkaðurinn er að mettast og augljósum virkjunarkostum fer fækkandi.

Á fundi Vísinda- og tækniráðs í desember síðastliðnum var vísindanefnd og tækninefnd falið að vinna að skilgreiningu á þeim rannsóknasviðum sem okkur ber að leggja sérstaka rækt við á næstu árum. Í síðasta mánuði var leitað til grasrótarinnar og efnt til hugmyndaráðstefnu af þessu tilefni. Boðið var breiðum hópi vísindamanna til að sækja hugmyndir að áherslum til framtíðar, enda mikilvægt að vísindasamfélagið sé sem mest samhuga um þau rannsóknasvið sem að leggja ber sérstaka rækt við á næstu árum. Mikilvægt er að áherslurnar feli í sér verkefni sem gera kröfur sem ögra færni vísindanna og samtímis séu á ferðinni tækifæri sem atvinnulífið leggur áherslu á að nýta.

Við þurfum að geta átt í samstarfi við grannþjóðir okkar og skýrt áherslur okkar og tekið saman höndum við þær þar sem það á við. Norrænt samstarf mun líklega þróast mjög í þessa átt á næstu árum og Evrópusamstarfið á sviði rannsókna er þegar í þessum farvegi að verulegu leyti með tilstuðlan rammaáætlunarinnar. Þar þurfum við að geta tjáð áherslur okkar.

Góðir ráðstefnugestir

Menntun á háskólastigi, í návígi við vísindarannsóknir, er einhver besta fjárfesting sem við getum ráðist í til framtíðar. Við verðum þó að gæta þess að vísindastarf er þolinmótt starf og að því þarf að hlúa. Sjaldan er fyrirsjáanlegt hvaða uppgötvanir verða beinlínis í askana látnar. Samt er ljóst að vísindarannsóknir eru einhver öflugasti drifkrafturinn í hátæknisamfélagi nútímans, og sá þáttur þess sem mun skila miklu af hagvexti framtíðarinnar, auk þess að bæta hin óefnislegu lífskjör til muna.  Þess vegna er það hlutverk stjórnvalda að búa vísindarannsóknum góð vaxtarskilyrði með einföldum leikreglum og hvetja vísindamenn til dáða.

Vísinda- og tækniráð leggur ríka áherslu á að byggja öflugar brýr milli vísindanna og atvinnulífsins og milli vísindanna og stjórnvalda sem þurfa í vaxandi mæli að byggja ákvarðanir sínar á vísindalegri þekkingu, þannig að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða í lífskjörum og góðu mannlífi. Samkeppnissjóðirnir gegna lykilhlutverki í þessu efni. Samkeppni og samstarf eru tvær hliðar á sama máli og fela ekki í sér mótsögn. Sameiginleg sýn á grundvallaratriðin er hér lykilatriði en samkeppni hugmyndanna á grundvelli gæða og skapandi, ábyrgrar hugsunar styður vísindin sjálf til frekari dáða.

Ég óska ykkur svo árangursríkrar ráðstefnu og frjórrar umræðu um þessar mikilsverðu spurningu ráðstefnunnar.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband